Innleiðing skólastefnunnar Skóli án aðgreiningar hefur aldrei farið markvisst fram að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sambandið hefur óskað eftir úttekt á stefnunni frá árinu 2008 og hefur verið unnið að slíkri úttekt að undanförnu og er niðurstaðna að vænta í næsta mánuði. Samkvæmt könnun hefur stór hluti grunnskólakennara neikvæð viðhorf til skólastefnunnar.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að spyrja þurfi áleitinna og krefjandi spurninga varðandi stöðu grunnskólans. „Við viljum vita hvort við séum að ná árangri með þessari stefnu,“ segir Illugi.
Lektor við Menntavísindasvið HÍ segir að pólitískar hræringar hafi haft áhrif á stefnumótun í menntakerfinu í gegnum tíðina. Gjarnan hafi kenningum á þessu sviði verið fylgt eins og tískustraumum.
Í dag og næstu fjóra daga verður fjallað ítarlega um málefni grunnskólanna á síðum Morgunblaðsins. Næstu vikur og mánuði fram að sveitarstjórnarkosningunum verður fjallað ítarlega um stærstu verkefni sveitarfélaganna og er það hluti af kosningaumfjöllun blaðsins.