Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sækist eftir efsta sæti Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor og að vera í forystu fyrir borginni.
Dagur er uppalinn í Árbænum, læknir að mennt og hefur setið í borgarstjórn frá 2002. Hann er kvæntur fjögurra barna faðir. Hann er stoltur af árangri síðustu ára við stjórn borgarinnar og leggur kapp á úrbætur á leigumarkaði á næsta kjörtímabili.
Framboðsyfirlýsingin fer hér á eftir:
Kæru borgarbúar!
Ég var rétt í þessu að ganga frá formlegri til kynningu um framboð í flokksvali Samfylkingarinnar. Ég sækist eftir fyrsta sæti og að vera í forystu fyrir borgina næstu fjögur ár. Það fylgir því alltaf sérstakur fiðringur þegar kosningar nálgast. Einsog sumarfiðrildin séu komin á kreik – í maganum á manni. En vorið leggst vel í mig. Ég er staðráðinn í að láta baráttuna framundan vera jákvæða og uppbyggilega og borginni okkar til sóma.
Reykjavík stendur að mörgu leyti vel. Ég er stoltur af því að við leystum farsællega úr afleitri stöðu Orkuveitunnar, atvinnuleysi hefur lækkað hratt og við höfum komið fjármálum borgarinnar á lygnan sjó. Við höfum sparað, sýnt ábyrgð og tryggt stöðugleika við stjórn borgarinnar. Við höfum tekið sundlaugarnar okkar í gegn og lýðheilsumálin fastari tökum. Hjólreiðar og útivist eru að eflast og strætó hefur snúið vörn í sókn. Hugmyndir borgarbúa hafa fengið að njóta sín einsog sést í framkvæmdum í öllum hverfum. Og framtíðarsýnin sem birtist í nýju aðalskipulagi er sannarlega þess virði að berjast fyrir!
Að stjórna borg snýst fyrst og síðast um þetta, að auka lífsgæði borgarbúa í öllu sem við gerum.
Næstu ár verða mjög mikilvæg. Leigumarkaðurinn er í ólestri og við þurfum að hefja byggingu þrjú þúsund nýrra leigu- og búseturéttaríbúða á næstu þremur til fimm árum. Því vil ég koma í verk! Við þurfum að bæta kjör barnafjölskyldna og horfa á það sem skiptir þær mestu máli, aðbúnað barnanna okkar í skólum, leikskólum og frístundastarfi. Við þurfum að stuðla að jöfnum tækifærum allra Reykvíkinga, fatlaðra og ófatlaðra, hinna eldri og hinna yngri, í öllum hverfum og um alla borg. Reykjavík á að vera lífsgæðaborg fyrir alla, eða einsog Jón Gnarr orðaði það svo fallega: Alls konar borg, fyrir alls konar fólk.
Ég er þakklátur fyrir undanfarin ár. Ég hef lært mikið og lagt inn á reynslubankann. Framhaldið er í höndum borgarbúa. Ég er til, ef þið eruð til.