Birkir Jón í framboð í Kópavogi

Birkir Jón Jónsson.
Birkir Jón Jónsson.

Birkir Jón Jónsson, fyrrverandi alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins, hefur ákveðið að sækjast eftir því að leiða lista Framsóknarflokksins í Kópavogi í vor. Hann birti yfirlýsingu um þetta á fésbók í dag.

„Ég hef ákveðið að sækjast eftir því að leiða lista Framsóknarflokksins í Kópavogi í vor. Spennandi tímar framundan!“ segir í yfirlýsingu frá Birki Jóni. 

„Eftir samtöl við fjölmarga Kópavogsbúa að undanförnu er ég sannfærður um að öflugur listi Framsóknarflokksins geti náð góðum árangri í kosningunum í vor. Mikilvægt er að taka stjórn bæjarins  föstum tökum og þar mun Framsóknarflokkurinn leika lykilhlutverk fái hann umboð til þess,“ segir í yfirlýsingu sem Birkir Jón sendi frá sér.

Birkir Jón var kjörinn á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 2003, aðeins 24 ára gamall. Hann sóttist ekki eftir endurkjöri í kosningunum sem fram fóru á síðasta ári. Þar áður hafði hann verið aðstoðarmaður félagsmálaráðherra í tvö ár. Birkir Jón var varaformaður Framsóknarflokksins 2009-2013.

Birkir Jón er í sambúð með Svövu H. Friðgeirsdóttur og saman eiga þau tvær dætur.

Framsóknarflokkurinn fékk einn mann kjörinn í bæjarstjórn Kópavogs í síðustu kosningum. Ómar Stefánsson, oddviti listans, hefur lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert