Tveir bjóða sig fram í fyrsta sætið hjá Pírötum

Píratar í Reykjavík fengju tvo borgarfulltrúa, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup.
Píratar í Reykjavík fengju tvo borgarfulltrúa, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Fjögur framboð  hafa borist í tvö efstu sætin á lista Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.

Kosningar á listann fara fram í rafrænu kosningakerfi Pírata dagana 12. til 22. febrúar. Kosningarnar eru opnar þeim félögum í aðildarfélaginu Pírötum í Reykjavík sem hafa verið skráðir í 30 daga eða lengur í Pírata.

Halldór Auðar Svansson, tölvunarfræðingur hjá Hagstofu Íslands og kafteinn Pírata í Reykjavík, hefur boðið sig fram í fyrsta sæti.

Einnig hefur Þórgnýr Thoroddsen, tómstundafræðingur og meðlimur í framkvæmdaráði Pírata á Íslandi, gefið kost á sér í fyrsta sætið.

Þórlaug Ágústsdóttir og Arnaldur Sigurðarson hafa síðan bæði gefið kost á sér í annað sætið á lista Pírata í Reykjavík.

Þórlaug er stjórnmálafræðingur og hefur starfað að netmálum, meðal annars hjá Össuri, 365 og í forsætis- og utanríkisráðuneytinu. Hún hefur komið að ýmsum störfum innan Pírata og þar má helst nefna stöðu almannatengslastjóra Pírata.

Arnaldur er nemi í félagsfræði og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands. Hann er varamaður í framkvæmdaráði Pírata, verkefnastjóri www.code.org á Íslandi og kafteinn Ungra Pírata.

Kristín Elfa Guðnadóttir hefur boðið sig fram í þriðja sætið. Hún var í framboði fyrir Pírata í alþingiskosningunum 2013 og er leikskólakennari, landvörður og mannfræðingur að mennt. Kristín hefur lengst af starfað sem kennari, blaðamaður, ritstjóri og útgáfustjóri auk þess að reka fyrirtæki. Kristín skrifaði bækurnar „Hamfarir á Haítí“ og „Ferðasól“, og leikritið „Korter“.

Svafar Helgason hefur boðið sig fram í annað til þriðja sæti. Hann er sjálfstætt starfandi í grafík og hefur tekið að sér umbrotsverkefni í prenti og á vef. Hann er varafulltrúi í framkvæmdaráði Pírata, virkur í almannatenglsastarfi Pírata og var kynningarstjóri í síðustu alþingiskoningum.

Í fleiri sveitarfélögum er skriður á sveitarstjórnarmálum Pírata. Í Hafnarfirði og Reykjanesbæ er verið að stofna svæðisbundin aðildarfélög Pírata.

Stofnfundur Pírata í Hafnarfirði var haldinn laugardaginn 25. janúar klukkan 16.30 í Gamla vínhúsinu, Vesturgötu 3.

Stofnfundur Pírata í Reykjanesbæ verður haldinn föstudaginn 31. janúar klukkan 17.00  í húsakynnum Virkjunar við Flugvallarbraut 740 á Ásbrú, samkvæmt tilkyningu frá Pírötum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert