Félagslega sinnuð stjórnmálaöfl standi saman

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Árni Sæberg

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefst á morgun en á meðal þess sem fram kemur í ályktunum sem liggja fyrir fundinum og hann mun taka afstöðu til er hvatning frá stjórn flokksins þess efnis að félagslega sinnuð stjórnmálaöfl snúi bökum saman í sveitarfélögum og á Alþingi gegn stefnu hægriflokka.

„Með samstöðu og samvinnu gegn stefnu hægriflokkanna í efnahagsmálum, skattamálum, atvinnumálum, umhverfismálum, menntamálum og velferðarmálum, má hindra stórfelldar neikvæðar breytingar á íslensku samfélagi á kjörtímabilinu. Varðstaða um náttúru landsins, almannahagsmuni og velferðarsamfélagið verður sífellt meira aðkallandi. Með samstöðuna að vopni er unnt að hafa áhrif á framgang mikilvægra mála og draga úr áhrifum stjórnarflokkanna í þágu sérhagsmuna. Þar er mikilvægt að Vinstrihreyfingin – grænt framboð beiti sér fyrir öflugri samstöðu á vinstrivængnum og hafi hér eftir sem hingað til jöfnuð og félagslegt réttlæti að leiðarljósi í öllum sínum áherslum og verkum,“ segir í ályktun þess efnis.

Meðal annarra ályktana sem liggja fyrir fundinum er áskorun á Alþingi að hefja vinnu við að skilgreina vægi hjólreiða í samfélaginu og að unnin verði Hjólreiðaáætlun Íslands sem og á öll sveitarfélög landsins að standa vörð um rétt barna til hjólreiða og er vísað í þeim efnum til rannsókna sem sýni að hæfni barna til náms aukist við hreyfingu. Ennfremur áskorun á fyrirtæki og stofnanir landsins að bjóða starfsfólki sínu samgöngugreiðslur vegna vistvænna ferða til og frá vinnu.

Þá er lögð áhersla á að náttúruperlur landsins séu sameign landsmanna og lagst gegn aðgangseyri að þeim, lagst gegn sameiningu ríkisstofnana sem færi aukin völd á hendur fárra embættismanna og órökstuddar hugmyndir um sameiningu háskólastofnana gagnrýnd. Sömuleiðis er ályktun frá stjórn ungliðahreyfingar VG um að Ísland segi sig tafarlaust úr NATO, ákærur á hendur einstaklingum sem mótmæltu í Gálgahrauni verði felldar niður og gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Ályktanirnar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert