Dagur B. Eggertsson, Björk Vilhelmsdóttir, Hjálmar Sveinsson og Kristín Soffía Jónsdóttir leiða lista Samfylkingarinnar í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram í vor. Þetta eru niðurstöður flokksvals Samfylkingarinnar sem fóru fram í dag og í gær.
Alls nýttu 1.732 félagsmenn atkvæðisrétt sinn í flokksvalinu. Kjörsókn var 30,74%. Auð og ógild atkvæði voru 30.
Atkvæði þeirra fjögurra frambjóðenda sem hlutu bindandi kosningu:
1. sæti: Dagur B. Eggertsson með 1.421 atkvæði i það sæti, eða 82,2 %.
2. sæti: Björk Vilhelmsdóttir með 1.002 í fyrsta og annað sæti.
3. sæti: Hjálmar Sveinsson með 501 í fyrsta til þriðja sæti.
4. sæti: Kristín Soffía Jónsdóttir með 665 í fyrsta til fjórða sæti.
„Mér fannst koma flottur og fjölbreyttur listi út úr þessu. Þetta flokksval var lúxusvandamál, margir sterkir í framboði,“ segir Björk Vilhelmsdóttir í samtali við mbl.is.
„Eg er mjög ánægð með þetta, mjög ánægð með hvað flokkurinn stendur gríðarlega sterkur. Við erum með sterkan lista, það var mikil stemning í flokksvalinu, mikil eining og engin leiðindi. Við hlökkum til kosningabaráttunnar.“