Þakklátur fyrir traustið

Ármann Kr. Ólafsson sigraði prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í gær.
Ármann Kr. Ólafsson sigraði prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í gær. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég er afskaplegur þakklátur fyrir þessa niðurstöðu og það traust sem mér er sýnt. Út úr þessu prófkjöri kemur gríðarlega sterkur listi sem kemur til með að gera góða hluti í vor,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, sem hlaut fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í bænum í gær.

Hann segir það vera mjög sterkt fyrir sjálfstæðismenn að halda svona fjölmennt prófkjör þar sem hinn almenni Kópavogsbúi fái tækifæri til að velja fólk á lista. „Þetta er eini flokkurinn sem kemur til með að bjóða upp á það. Hinir flokkarnir munu allir ákveða sína lista í skúmaskotum,“ segir hann.

Alls fékk Ármann 1.711 atkvæði, eða 61,5% atkvæða, í fyrsta sæti listans. Í öðru sæti hafnaði Margrét Friðriksdóttir, skólameistari Menntaskólans í Kópavogi, sem einnig sóttist eftir fyrsta sætinu. 2.872 manns greiddu atkvæði í prófkjörinu.

Ertu ánægður með kosningaþátttökuna?

„Þátttakan var gríðarlega sterk, tæplega þrjú þúsund manns. Það verður að teljast mjög gott veganesti inn í sveitarstjórnarkosningarnar. Það er greinilega mikill áhugi til staðar hjá fólki á því að fá tækifæri til að velja á lista,“ segir hann.

Hann segist hafa fundið fyrir góðum meðbyr allan tímann meðan á kosningabaráttunni stóð. Í heild hafi baráttan farið málefnalega fram og segir hann að allir sem hafi tekið þátt í prófkjörinu eigi heiður skilinn.

„Ég lagði störf mín sem bæjarstjóra í dóm kjósenda Sjálfstæðisflokksins og það er greinilegt að þeir vilja halda áfram á braut ábyrgrar fjármálastjórnar og niðurgreiðslu skulda. Það eru skýr skilaboð í þessum niðurstöðum og ég mun áfram leggja áherslu á það,“ segir hann spurður um þau verkefni sem framundan eru.

„En að sama skapi skapast líka mikil sóknarfæri,“ bætir hann við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert