Ánægja með gott gengi kvenna

Rósa Guðbjartsdóttir mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði.
Rósa Guðbjartsdóttir mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. mbl.is/Eggert

Landssamband sjálfstæðiskvenna lýsir ánægju sinni yfir góðum árangri kvenna í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins sl. laugardag og í Hafnarfirði 1. febrúar síðastliðinn. Niðurstaðan er mjög góð fyrir konur sem eru að raða sér í mörg efstu sætin. 

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fram kemur, að kona muni leiða lista flokksins í Hafnarfirði í fyrsta sinn. Í Kópavogi hafi konur lent í 2., 3., 4. og 6. sæti,  í 2. og 4. sæti á Akureyri, 2., 4., 6. og 8. í Mosfellsbæ, 3.-5. sæti á Ísafirði og 3., 4. og 6. sæti í Grindavík.

Þessar niðurstöður muni væntanlega tryggja konum efstu sætin á framboðslistum og síðan vonandi áhrifasæti í bæjarstjórnum.

„Landssamband sjálfstæðiskvenna gerði sérstakt átak til að hvetja konur til þátttöku í prófkjörum og til að bjóða sig fram í efstu sætin og fagnar því mjög þeim árangri sem nú þegar hefur náðst með þeim niðurstöðum sem hafa litið dagsins ljós.

Það er sérstakt markmið sambandsins að áhrifa kvenna gæti sem víðast, samfélaginu til heilla og væntir þess að framboðslistar flokksins njóti almenns stuðnings í sveitarstjórnarkosningum í vor.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert