Skúli tekur fimmta sætið

Skúli Helgason
Skúli Helgason

Skúli Helgason hefur ákveðið að þiggja boð um að taka fimmta sætið á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Í tilkynningu sem Skúli sendi frá sér segist hann hafa íhugað stöðu sína og áframhaldandi þátttöku í stjórnmálum eftir niðurstöður flokksvals síðastliðna helgi.

„Niðurstaða mín er sú að láta slag standa og leggja mitt af mörkum til að Samfylkingin verði forystuaflið í borginni næstu fjögur árin. Ég fékk mikla hvatningu frá félögum mínum og öðrum að halda áfram baráttu minni fyrir sókn í menntamálum og grænu hagkerfi og er þakklátur fyrir þann stuðning,“ segir Skúli í tilkynningu.

„Ég hef brennandi áhuga á því að stuðla að bættu skólastarfi og mun beita mér fyrir nánu samstarfi borgaryfirvalda, annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og fagfólks í skólum um að setja menntamálin í forgang á komandi árum.“

Að mati hans þarf að m.a. að styrkja stöðu þeirra drengja sem ekki njóta sín í skólakerfinu, bæta árangur í lestri og öðrum undirstöðugreinum, draga úr brotthvarfi nemenda í framhaldsskólum með auknu samstarfi grunnskóla og framhaldsskóla, bæta verulega kjör kennara og auka þjónustu við nemendur sem standa höllum fæti í skólakerfinu.  

Segir hann Reykjavík eiga að vera í fararbroddi í íslensku skólakerfi. „Ég mun beita mér fyrir því að það verði eitt helsta baráttumál Samfylkingarinnar í komandi kosningum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert