Páll Hilmarsson, núverandi bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, segir ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn í bænum hafi skipst í tvær fylkingar. Páll, Stefán Konráðsson og Sturla Þorsteinsson, sem allir sitja nú í bæjarstjórn fyrir flokkinn og sóttust allir eftir sæti ofarlega á lista, verða ekki í framboði fyrir flokkinn í sveitarstjórnarkosningunum í vor.
22 manna listi uppstillingarnefndar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor var samþykktur á fundi fulltrúaráðs flokksins í kvöld. Gunnar Einarsson bæjarstjóri leiðir lista flokksins. Tekist var á um lista nefndarinnar á fundinum en áður en listinn var samþykktur hafði tillögu um að vísa listanum aftur til uppstillingarnefndar verið hafnað.
„Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ skiptist í tvær fylkingar og var listinn í kvöld samþykktur með naumum meirihluta. 73 sögðu já og 44 sögðu nei. Af þessum 73 eru 22 sem sitja á listanum og því er bara 51 sem er óháður,“ sagði Páll í samtali við mbl.is eftir fundinn í kvöld sem stóð yfir í fjórar klukkustundir.
„Í dag snýst þetta ekki um mína persónu heldur fyrst og fremst um heildina. Menn eru ósáttir við vinnubrögðin. Ég hef alltaf verið maður prófkjörs og sótt mitt fylgi til grasrótarinnar,“ segir Páll.
„Þetta er ákveðið áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ. Vinnubrögðin vöktu úlfúð og deilur og uppstillingin skilaði ekki þeim árangri sem lagt var upp með í upphafi. Við hefðum betur viðhaft prófkjör við val á lista.
Tæknilega er meirihlutinn í Garðabænum fallinn fram að næstu kosningum,“ segir Páll, aðspurður hvort hann styðji meirihlutann.
„Auðvitað vildi ég vera áfram í þessu hlutverki en þetta er niðurstaða fundarins. Það er kannski ýmislegt í reglum flokksins sem við þyrftum að endurskoða, til að mynda hvernig svona tillögur eru bornar upp og hvaða framgangi þær eiga að lúta,“ sagði Sturla Þorsteinsson í samtali við mbl.is.
„Ég er fyrst og fremst í þjónustu við Garðbæinga til þess að vinna fyrir fólk og með fólki,“ segir Sturla, aðspurður hvort hann styðji meirihlutann í bæjarstjórninni.
Frétt mbl.is: Gunnar leiðir í Garðabæ.