„Það hefur alltaf verið á brattann að sækja fyrir Framsóknarflokkinn í borginni,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í viðtali við Frjálsa verslun sem kom út í dag spurður hvernig hann meti stöðu Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Hann bendir á að flokkurinn hafi til að mynda mælst með lítið fylgi skömmu fyrir kosningarnar 2006 en engu að síður náð inn manni.
„Það er mikið verk framundan á næstu þremur mánuðum við að ná fylginu upp en ég er viss um að það mun takast. Ég held að við náum inn manni. Ég ætla jafnvel að leyfa mér að vera svo bjartsýnn að við getum náð inn tveimur mönnum,“ segir ráðherrann ennfremur. Hann hafi trú á því að fylgi Bjartrar framtíðar eigi eftir að dala þegar nær dragi kosningum. Þá verði frambjóðendur og það sem þeir standi fyrir ofan á.
„Ég held að frambjóðendur [Framsóknar-]flokksins í Reykjavík muni geta sýnt fram á að málstaðurinn sé góður og að það sé æskilegt að flokkurinn komist til áhrifa í borginni. Það gekk til dæmis mjög vel síðast þegar flokkurinn var í meirihluta. Þá var lagt upp úr að taka á fjármálum borgarinnar og endurskipuleggja þau. Komið á stöðugleika.“