„Mér finnst ástæða til þess að félagslega þenkjandi fólk sem nú horfir til þeirra framboða sem í boði eru á þeim væng stjórnmálanna sem vill kenna sig við félagshyggju að gleyma ekki Dögun með Þorleif Gunnlaugsson í broddi fylkingar.“
Þetta segir Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á heimasíðu sinni þar sem hann lýsir yfir stuðningi við Þorleif Gunnlaugsson, oddvita framboðs Dögunar í Reykjavík og fyrrverandi varaborgarfulltrúa VG. Ögmundur segir að afleitt væri að missa Þorleif úr borgarpólitíkinni „og fá í staðinn meira af Pírötum, Bjartri framtíð, Framsókn eða Samfylkingu svo nefndir séu flokkar sem stundum vilja máta sig við félagsleg sjónarmið“.
Ögmundur segir ennfremur að eftirsjá sé að Þorleifi og að enginn í borgarpólitíkinni hafi verið ötulli á undanförnum árum en hann „að tala máli þess fólks sem er tekjulítið og á undir högg að sækja í félagslegu tilliti. Það er helst nú undir kosningar að værukærara fólk er að ranka við sér. Þorleifur Gunnlaugsson hefur hins vegar haldið þessum málstað á loft óháð því hvort kosningar eru á næsta leiti eða langt undan“.
Þá ræðir hann um framboð Dögunar. Það mælist enn lágt enda kynning af skornum skammti. „Þetta minnir mig á fyrri daga þegar VG var að verða til og gömul samtrygging um óbreytt ástand birtist í beinni og óbeinni þöggun gagnvart nýjabruminu.“