Ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið sýnir mikla fylgissveiflu til Samfylkingarinnar í Reykjavík. Er Samfylkingin orðin stærsti stjórnmálaflokkurinn í borginni. Fengi flokkurinn 28% atkvæða og fimm fulltrúa kjörna ef kosið væri nú til borgarstjórnar.
Meirihlutinn í borgarstjórn heldur velli, hefur níu borgarfulltrúa og fengi áfram níu, að því er fram kemur í fréttaskýringu um niðurstöður könnunarinnar í Morgunblaðinu í dag. Björt framtíð er næststærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni, með 24,8% fylgi og fjóra borgarfulltrúa. Það er talsvert minna fylgi en Besti flokkurinn fékk í borgarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum. Tapast tveir borgarfulltrúar.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi, fær 24,4% og fjóra borgarfulltrúa, en fékk í kosningunum árið 2010 33,6% atkvæða og fimm menn. Flokkurinn hefur einnig tapað fylgi frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar í febrúar, en þá mældist fylgið 28,4%.