Nýtt framboð nyti mögulega 38% stuðnings

Þorsteinn Pálsson.
Þorsteinn Pálsson. mbl.is/RAX

Tæp 40% (38,1%) þeirra sem tóku þátt í nýrri könnun MMR segja að það komi til greina að kjósa nýtt framboð hægrimanna, sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Yfir 60% (61,9%) sögðu það ekki koma til greina.

MMR kannaði á dögunum afstöðu almennings til þess hvort til greina kæmi að kjósa nýtt framboð hægrimanna, sem nyti stuðnings Þorsteins, ef það byði fram í næstu alþingiskosningum.

Fram kemur í tilkynningu frá MMR, að þetta sé meiri stuðningur við mögulegt nýtt framboð en hafi mælst við önnur slík á síðastliðnum árum.

„Má þar til samanburðar vísa til könnunar MMR frá í janúar 2012 þar sem nýtt framboð Guðmundar Steingrímssonar og Besta flokksins annars vegar og nýtt framboð Lilju Mósesdóttur hins vegar nutu stuðnings 23-24% þeirra sem tóku afstöðu. Hæst fór stuðningur við framboð Guðmundar Steingrímsonar í 34% í október 2011,“ segir í tilkynningu.

Könnunin var framkvæmd dagana 28. mars til 1. apríl 2014 og var heildarfjöldi svarenda 960 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Spurt var: „Kæmi til greina að þú kysir nýtt framboð hægrimanna, sem nyti stuðnings Þorsteins Pálssonar fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, ef það byði fram í næstu alþingiskosningum?"

Svarmöguleikar voru: Já, nei, veit ekki og vil ekki svara. Samtals tóku 65,0% afstöðu til spurningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert