Hagræðing án blóðugs niðurskurðar

mbl.is/Ómar

„Vinstri flokkarnir hafa verið of lengi við stjórn, alveg frá árinu 1994, að undanskyldu síðasta kjörtímabili og við teljum það vera margt sem þarf að bæta,“ sagði Halldór Halldórsson, oddiviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík á fundi í dag þar sem stefnuskrá flokksins var kynnt. „Víða er hægt að hagræða án þess að fara í blóðugan niðurskurð og með því að hagræða er hægt að leyfa sér betri þjónustu á þeim sviðum þar sem það er nauðsynlegt.“

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík kynnti stefnuskrá sína fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í Rimaskóla í Grafarvogi í dag. Halldór sá um kynninguna og á sama tíma fór í loftið ný vefsíða flokksins í Reykjavík, www.xdreykjavík.is.

Skuldir hækkað mikið umfram landsmeðaltal

Halldór sagðist sjá mikil hættumerki í skuldasöfnun borgarsjóðs. „Skuldir borgarsjóðs hafa hækkað um 27% á kjörtímabilinu á meðan landsmeðaltal sveitarfélaganna hefur hækkað um 3%. Þetta þarf að stöðva og við ætlum að gera það.“ Þá leggur flokkurinn fram tillögu undir heitinu: „nóturnar á netið,“ að reikningar borgarinnar séu settir á netið til þess að opna stjórnsýsluna enn frekar. Þannig séu möguleikar á aðhaldi og  eftirliti færðir til íbúanna sjálfra. 

Opnað á íbúakosningu um flugvöllinn

Í stefnuskrá flokksins kemur skýrt fram að flokkurinn vill ekki að Reykjavíkurflugvöllur fari til Keflavíkur. Hins vegar sé nú að störfum nefnd á vegum innanríkisráðuneytisins um staðsetningu flugvallarins, og því sé sjálfsagt að bíða eftir niðurstöðum nefndarinnar. Halldór segir að hægt sé að nota íbúalýðræðið í þessu máli til þess að komast að niðurstöðu. „Við leggjum áherslu á að íbúar geti haft áhrif á mál sem standa þeim nærri og við ætlum að beita íbúakosningum í ríkari mæli.“ 

„Í anda þess að virkja betur íbúalýðræði þá munum við leggja okkar að mörkum að borgarbúar fái að koma að endanlegri ákvörðunartöku um staðsetningu flugvallarins í íbúakosningu. Við teljum að borgarbúar eigi að koma að þessu auk þess sem það sé ekki óeðlilegt að fleiri komi að þessari ákvörðun þar sem þetta er höfuðborgin, en við getum sjálf bara talað fyrir Reykvíkinga. Í nýjum sveitarstjórnarlögum geta 20% íbúa knúið fram íbúakosningu og það er ekkert óeðlilegt að Reykvíkingar vilji gera það,“ segir Halldór. 

Aukið valfrelsi og minni miðstýring í skólamálum

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík ætlar að beita sér fyrir því að grunnfærni nemenda verði betur tryggð. „Það er ekki ásættanlegt að 30% drengja og 12% stúlkna geti ekki lesið sér til gagns. Síðan viljum við að upplýsingagjöf um skólastarfið sé aukin og að samræmdir mælikvarðar um skólastarfið séu aðgengilegir öllum. Við viljum auka sjálfstæði skólanna, svo foreldrar hafi meira val um skóla fyrir börnin sín, hvort sem það séu skólar reknir af borginni með sína sérhæfingu eða sjálfstætt starfandi skóla.“

Tryggja verður nægt lóðaframboð

Halldór fjallað þá um ástandið á leigumarkaðnum í Reykjavík. „Það er hlutverk borgarinnar að stuðla að auknu lóðaframboði. Lóðaskortur þrýstir upp verðið. Við viljum tryggja nægt lóðaframboð. Við viljum bjóða út lóðir fyrir þá sem vilja hasla sér völl á leigumarkaði. Sá aðili sem býður hagstæðasta leiguverðið fær samning við borgina, skuldbindur sig til þess að endurgreiða lóðaverðið á tímabilinu og skuldbindur sig jafnframt til þess að vera með eðlilegt lóðaverð á tímabilinu,“ sagði Halldór.

Frá blaðamannafundi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Rimaskóla í dag. Halldór …
Frá blaðamannafundi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Rimaskóla í dag. Halldór Halldórsson mbl.is/Ómar
mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert