Verður áfram í fótgönguliðinu

Sveinn Andri Sveinsson ætlar ekki að leiða nýjan flokk hægri …
Sveinn Andri Sveinsson ætlar ekki að leiða nýjan flokk hægri sinnaðra Evrópusinna. Árni Sæberg

Fljótlega eftir páska verður boðað til óformlegs undirbúningsfundar fyrir stofnun nýs hægri framboðs Evrópusinna. Þessi vinna og mögulegt framboð verður ekki tengt við sveitarstjórnarkosningarnar, en tíðinda verður engu að síður að vænta núna í maí. Þetta segir Sveinn Andri Sveinsson, Hæstaréttarlögmaður og einn þeirra sem stendur á bakvið lokaðan hóp á Facebook undir nafninu Nýr Sjálfstæðisflokkur.

Sveinn Andri segist sjálfur ekki ætla að leiða slíkt framboð og að enn hafi slíkt ekki verið rætt formlega. „Ég er áhugamaður um stjórnmál og verð það áfram. Ég verð bara í fótgönguliðinu eins og hefur verið,“ segir hann.

Dregur til tíðinda í maí

Ný framboð hafa oft komið snögglega fram og án mikillar undirbúningsvinnu og segir Sveinn Andri að það hafi oft háð þeim. Segir hann að reynt verði að fara sér hægt með þennan hóp, en að þegar kemur að því að tilkynna um stofnun flokksins verði það gert með miklum látum. „Það mun draga til tíðinda í maí,“ segir Sveinn Andri.

Aðspurður um möguleika nýs framboðs segir Sveinn Andri að breiður hópur sé á bakvið málefnin sem hann stendur fyrir. „Það er nokkuð ljóst að það er mikið pláss í hinu pólitíska landslagi fyrir flokk eins og þennan. Sjálfstæðisflokkurinn hefur eiginlega séð til þess sjálfur,“ segir hann.

Fólk er tilbúið í slaginn

Sveinn Andri segir hópinn á Facebook ekki vera formlegan vettvang fyrir nýtt framboð, heldur sé um að ræða síðu þar sem fólk hafi verið að skrá sig inn og sé tilbúið í slaginn. Hann segir að nokkurra skörun vera á milli hópsins og Sjálfstæðra Evrópumanna, en tekur þó fram að ekki sé sjálfgefið að menn gangi til liðs við nýjan flokk ef af stofnun hans verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert