Engar forsendur til að styðja Guðna

Guðrún Bryndís Karlsdóttir.
Guðrún Bryndís Karlsdóttir.

„Ég get ekki stutt mann sem ég þekki ekki. Ég get ekki stutt ein­hvern sem ekki hef­ur talað við mig og ekki boðið mér það að styðja sig. Ég geri það ekki úti í blá­inn, ég hef eng­ar for­send­ur til þess,” seg­ir Guðrún Bryn­dís Karls­dótt­ir, sem skip­ar annað sætið á lista Fram­sókn­ar­flokks­ins í Reykja­vík. 

Með orðum sín­um vís­ar hún til þeirr­ar at­b­urðarás­ar sem leiddi til þess að Guðna Ágústs­syni hef­ur verið boðið 1. sæti á lista flokks­ins í kom­andi borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um. Hún seg­ir það gert í trássi við regl­ur og samþykkt­ir flokks­ins.  Fram kom í frétt­um um helg­ina að Guðni ætl­ar að greina frá því á sum­ar­dag­inn fyrsta, hvort hann tek­ur sæti á lista Fram­sókn­ar í Reykja­vík.

Ekki boðið und­ir feld­inn

„Hann fékk þetta umboð til að setja sam­an lista. En sam­kvæmt regl­um flokks­ins þá samþykk­ir hann lista sem ég er í öðru sæti á. Það er farið fram­hjá því með ein­hverj­um snún­ing­um í kjöl­far þess að Óskar (Bergs­son) fór. Allt þetta er vinna sem fer fram til hliðar við flokk­inn. En ég skor­ast ekki und­an þeirri ábyrgð sem að flokk­ur­inn sýn­ir mér. Ég hef ekki sam­visku til þess að ganga í burtu,“ seg­ir Guðrún. 

Hún seg­ir að þrýst hafi verið á sig að hætta við fram­boðið. „Ég er nýliði í stjórn­mál­um en þetta er allt sam­an mjög skrítið, svo mikið veit ég,” seg­ir Guðrún og bæt­ir við. „Þessi vinna fór fram í reyk­fyllt­um bak­her­bergj­um og þaðan und­ir feld. Þar er fullt af mönn­um sem ekki hafa boðið mér und­ir feld­inn,” seg­ir Guðrún.

Guðni full­trúi gömlu stjórn­mál­anna

Hún seg­ir að Guðni standi fyr­ir ann­ars kon­ar stjórn­mál en hún. „Hann er tengd­ur stjórn­mál­um af gamla skól­an­um. Það eru því eng­ar for­send­ur fyr­ir því að ég fari á lista hjá hon­um. Sam­kvæmt flokks­regl­um þá er óskað eft­ir fram­bjóðend­um en það er ekki gert núna. Ég lít svo á að fram­boð Guðna sé ótengt því verk­efni sem flokk­ur­inn treysti mér fyr­ir,” seg­ir Guðrún Bryn­dís.

Frétt mbl.is: Kjör­dæma­sam­bandið styður Guðna 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert