Guðni Ágústsson hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til að leiða lista Framsóknarflokksins í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar í næsta mánuði.
Í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér þakkar hann það traust sem honum hafi verið sýnt úr ólíkum áttum í samfélaginu. „Stuðningurinn hefur hlýjað mér um hjartaræturnar en jafnframt veit ég að allir virða ákvörðun mína,“ segir hann í tilkynningunni.
Hann segist jafnframt treysta því að flokkurinn nái saman um sterka frambjóðendur og framboðslista í Reykjavík á næstu dögum. „Málefnastaða Framsóknarflokksins er sterk bæði á landsvísu og í borginni og standa verður vörð um flugvöllinn í Vatnsmýrinni því hann gegnir lykilhlutverki í flugi og öryggismálum landsins,“ segir Guðni.
Guðni lá undir feldi yfir páskana og hugðist tilkynna ákvörðun sína í dag, sumardaginn fyrsta, á aukakjördæmisþingi kjördæmissambands Framsóknarflokksins í Reykjavík. Fram kom á vef flokksins seint í gærkvöldi að þinginu hefði verið frestað til þriðjudagsins næsta, 29. apríl. Þá verður nýr oddviti flokksins væntanlega kynntur.
Tilkynningin í heild sinni:
„Að vel hugsuðu máli þá hef ég tekið ákvörðun í samráði við fjölskyldu mína að gefa ekki kost á mér til að leiða lista framsóknarmanna í Reykjavík. Ég óska félögum mínum góðs gengis og trúi því og treysti að flokkurinn nái saman um sterka frambjóðendur og framboðslista í Reykjavík á næstu dögum. Málefnastaða Framsóknarflokksins er sterk bæði á landsvísu og í borginni og standa verður vörð um flugvöllinn í Vatnsmýrinni því hann gegnir lykilhlutverki í flugi og öryggismálum landsins.
Ég þakka það traust sem mér hefur verið sýnt úr ólíkum áttum í samfélaginu og stuðningurinn hefur hlýjað mér um hjartaræturnar en jafnframt veit ég að allir virða ákvörðun mína.
Með bestu kveðju og gleðilegt sumar
Guðni Ágústsson“