Höfnuðu ekki hugmynd Guðna

Þórir Ingþórsson, formaður Kjördæmasambands framsóknarmanna í Reykjavík.
Þórir Ingþórsson, formaður Kjördæmasambands framsóknarmanna í Reykjavík.

Formaður Kjördæmissambands framsóknar í Reykjavík (KFR) segir það rangt sem fram kemur í forsíðufrétt Morgunblaðsins að kjördæmissambandið hafi hafnað hugmyndum Guðna Ágústssonar um framboð framsóknarmanna og flugvallarsinna. Þvert á móti hafi hann verið hvattur til að vinna áfram að skipan listans á þeim forsendum.

Þórir Ingþórsson, formaður KFR, segir í yfirlýsingu vegna fréttar Morgunblaðsins að það skuli áréttað að full eining hafi verið milli stjórnar kjördæmissambands Framsóknar í Reykjavík og Guðna Ágústssonar um framboð hans og sátt um skipan í önnur sæti listans. „Stjórnin og Guðni unnu sameiginlega að því verkefni fram að því að Guðna snerist hugur á miðvikudagsmorgunn, enda hafði stjórn KFR þá þegar samþykkt og handsalað við Guðna að hann tæki oddvitasæti listans. Vinnan gekk vel og að kvöldi þriðjudags kvaddi undirritaður Guðna í sameiginlegum skilningi um að vinnunni yrði haldi áfram sameiginlega að morgni miðvikudags.“

Þá segir hann að ákvörðun Guðna um að draga framboð sitt til baka af persónulegum ástæðum degi síðar hafi því komið mjög á óvart í ljósi þessa samstarfs. „Á fundi upp úr hádegi á miðvikudag með formanni, varaformanni og ritara flokksins ásamt formanni og varaformanni kjördæmissambandsins, greindi Guðni viðstöddum frá því að hann hefði tekið ákvörðun sína af persónulegum ástæðum í samráði við fjölskyldu sína og reifaði meðal annars hugmyndir um að flugvallarsinnar og aðrir aðilar skipuðu sæti á listanum ásamt flokksbundnu framsóknarfólki.

Vel var tekið í þær hugmyndir og því var fullljóst á miðvikudag að hugmyndum Guðna Ágústssonar um fólk til að skipa listann var í engu mótmælt. Þvert á móti var hann hvattur til að vinna áfram að skipan listans á þeim forsendum með stjórn kjördæmissambandsins. Allar fullyrðingar í fjölmiðlum um að stjórn KFR hafi á einhvern hátt staðið skipulega í vegi fyrir hugmyndum Guðna Ágústssonar um skipan listans eru því einfaldlega rangar. “

Þórir gagnrýnir einnig blaðamann Morgunblaðsins og segir hann ekki hafa haft samband við formann eða varaformann KFR þrátt fyrir að fréttin snúi beint að stjórn kjördæmissambandsins. „Það er verulega ámælisvert að fjölmiðlar skuli birta rangar fullyrðingar á þennan hátt án þess að ræða við þá sem hlut eiga að máli. Að birta slíka frétt byggða á orðrómi ókönnuðum hjá þeim sem í hlut eiga, og það á forsíðu, getur í besta falli talist vítavert dómgreindarleysi af hálfu blaðamannsins og Morgunblaðsins.“

Frétt Morgunblaðsins: Höfnuðu hugmynd Guðna

Guðni Ágústsson
Guðni Ágústsson Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert