Frambjóðendurnir hófu sig á loft

„Við leggjum áherslu á að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, að það sé öryggi í húsnæðismálum fyrir borgarbúa og á menntamálin,“ segir Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, en hún skipar annað sætið á lista Framsóknar og flugvallarvina, fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir skipar fyrsta sætið.

Listi yfir frambjóðendur var kynntur á blaðamannafundi á Reykjavíkurflugvelli í dag en listinn var fyrst kynntur á kjördæmisþingi Framsóknarmanna í Reykjavík í gærkvöldi.

Eftir að listinn var kynntur stigu þrír efstu frambjóðendurnir á listanum upp í flugvélar og hófu sig á loft ásamt flugkennara. Floginn var hringur yfir höfuðborgarsvæðið. 

Ákvað í gær að gefa kost á sér í gær

Ekki er langt síðan Guðfinna tók ákvörðun um að gefa kost á sér. „Ég tók ákvörðun í gær. Ég hef starfað við húsnæðismál í tæp 20 ár og tel mig hafa þekkingu og reynslu á þessu sviði sem nýst getur borgarbúum. Það þýðir ekki bara að sitja heima, maður verður að taka þátt. Það er mitt hjartans mál að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni,“ segir Guðfinna sem ræddi við mbl.is eftir fundinn í dag.

Unnið verður að málefnavinnu framboðsins næstu daga. „Við höfum fólk á listanum sem hefur breiða þekkingu og reynslu. Við munum fara fram af öllum krafti,“ segir Guðfinna.

Vilja ná í að minnsta kosti tveimur fulltrúum

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti framboðsins,  sagðist í samtali við mbl.is í gærkvöldi vera bjartsýn fyrir hönd framboðsins. „Við höfum fengið til liðs við okkur fólk til að leggja skynsamlegri ákvarðanatöku í nærsamfélaginu lið,“ sagði Sveinbjörg.

Stefnt verður að því að ná að minnsta kosti tveimur fulltrúum inn í borgarstjórn. Konur skipa efstu fjögur sæti listans. 

Listinn í heild sinni: 

1. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, héraðsdómslögmaður

2. Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, héraðsdómslögmaður

3. Gréta Björg Egilsdóttir, íþróttafræðingur

4. Jóna Björg Sætran, menntunarfræðingur og markþjálfi

5. Hreiðar Eiríksson, héraðsdómslögmaður og fyrrv. lögreglumaður

6. Ríkharð Óskar Guðnason, útvarpsmaður

7. Trausti Harðarson, viðskiptafræðingur

8. Herdís Telma Jóhannsdóttir, verslunareigandi

9. Katrín Dögg Ólafsdottir, jafnréttisfulltrúi lögreglunnar

10. Jón Sigurðsson, skemmtikraftur

Frétt mbl.is: Bjartsýn fyrir hönd framboðsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert