„Við spurðumst fyrir um það hvort leyfilegt væri að afhenda þessa lista og var tjáð að svo væri samkvæmt vef innanríkisráðuneytisins. Ég óskaði þá bara eftir að fá þá afhenta til þess að þurfa ekki að vera að ónáða það fólk sem væri búið að skrifa upp á lista hjá öðrum. Okkur þykir það sjálfsögð kurteisi að láta það fólk afskiptalaust. Það vakir ekkert annað fyrir okkur.“
Þetta segir Bragi Mikaelsson, umboðsmaður framboðslista sjálfstæðismanna í Kópavogi, í samtali við mbl.is. Hann óskaði eftir því í gær á fundi kjörstjórnar í Kópavogi að fá afrit af meðmælendalistum annarra framboða afhent eftir að kjörstjórn staðfesti að það væri skylt væri eftir því leitað. Á upplýsingasíðu innanríkisráðuneytisins vegna kosninganna segir: „Ekki verður talið að meðmælendur eigi rétt á nafnleynd. Kjörstjórn er því skylt samkvæmt upplýsingalögum að afhenda listana, verði farið fram á það.“
Bragi segir það ekki skipta sjálfstæðismenn neinu máli hvort meðmælalistarnir verða afhentir eða ekki. Einungis hafi verið óskað eftir þeim í ljósi þess að skylt væri að afhenda þá samkvæmt leiðbeiningum innanríkisráðuneytisins. Hann bendir á að um opinber gögn sé að ræða sem umboðsmenn framboða hafi hvort sem er aðgang að á staðnum í tengslum við framkvæmd kosninganna.
„Við spurðum bara hvort við gætum fengið þetta afhent. Það var það eina sem við gerðum á þessum fundi á mjög kurteisan hátt,“ segir hann. Þau svör hafi fengist að gögnin væru ekki klár og fulltrúar sjálfstæðismanna sagt að það skipti engu máli. Nóg væri að fá þau afhent þegar þau væru tilbúin ef þeir ættu rétt á þeim. „Við höfum ekki fengið þau afhent enn og ekki gengið eftir því að fá þau afhent.“
Fulltrúar Dögunar, Pírata og Næstbesta flokksins í Kópavogi hafa gagnrýnt ósk Braga harðlega. Hefur hún verið sögð í hæsta máta óeðlileg, hluti af úreltri pólitík og henni líkt við vinnubrögð austurþýsku öryggislögreglunnar Stasi. Spurður út í þessi viðbrögð segir Bragi þau dæma sig sjálf.
„Ég held að þau minnki sjálfa sig mest með því að viðhafa þessi stóru orð. Það getur ekki verið um að ræða neinar persónunjósnir þegar um er að ræða skrá sem er opinber. Þetta eru opinber gögn,“ segir hann. Hann viti ekki til þess að þarna sé að finna neinar leyniupplýsingar.
Frétt mbl.is: Málið gæti ratað fyrir dómstóla
Frétt mbl.is: Mótmæltu afhendingu meðmælalista
Frétt mbl.is: Hluti af gamalli og úreltri pólitík