Kópavogsbúar hafa eflaust margir rekið upp stór augu í dag þegar þeir sáu að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík hafði tekið upp á því að auglýsa framboð sitt fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í bæjarfélaginu. Kosningastjóri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir að mistök hafi verið gerð og unnið sé að leiðréttingu þeirra.
Meðal þeirra sem vakið hafa athygli á auglýsingum í Kópavogi er Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Á samfélagsvefnum Facebook segir hún: „Kæri Halldór Halldórsson. Þetta finnst mér nú fulllangt gengið að koma með þessum hætti inn í Kópavoginn og lýsa því yfir að við séum hverfi í Reykjavík! Er þetta upphaf óvinveittrar yfirtöku? Ég skal sko segja þér það að hún mun ekki takast - nú grípum við Kópavogsbúar til varna!“
Stefanía Sigurðardóttir, kosningarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að um saklaus mistök sé að ræða. Sjálfstæðisflokkurinn líti alls ekki á Kópavog sem hverfi. Þá sé verið að leiðrétta mistökin og verði auglýsingum skipt út von bráðar.