Ef kosið yrði til bæjarstjórnar Akureyrar í dag fengju sjálfstæðismenn mest fylgi eða 20,6% og þrjá menn kjörna en þeir hafa einn í dag. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Capacent gerði fyrir Vikudag.
Munurinn á sjálfstæðismönnum og næsta framboði, L-listanum, er þó innan vikmarka. L-listinn fengi samkvæmt könnuninni 20,1% og tvo menn kjörna. Framsóknarmenn eru þriðju í röðinni með 16,9% fylgi og tvo fulltrúa. Samfylkingin fær sama fjölda fulltrúa með 14,4% fylgi.
Björt framtíð dalar hins vegar og nær inn einum fulltrúa í bæjarstjórn. Fylgi flokksins er 13,3%. Vinstrihreyfingin - grænt framboð fær 11,9% og einn mann. Fylgi Dögunar mælist 2,7% sem skilar engum fulltrúa í bæjarstjórn.