„Ég er staðgengill borgarstjóra og hef verið í fjögur ár,“ sagði Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs Reykjavíkur, til skýringar á því hvers vegna hann hefur haft aðgang að bílum í eigu borgarinnar.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram í gær fyrirspurn á fundi borgarráðs um notkun Dags á bílum borgarinnar en borgarfulltrúum er ekki heimilt að nota þá.
„Ég sinni starfsskyldum borgarstjóra við og við. Í upphafi kjörtímabilsins voru tveir bílar fyrir borgarstjóra, forseta borgarstjórnar og staðgengla þeirra. Við fækkuðum þeim í einn bíl. Það er stóra breytingin á þessu kjörtímabili,“ sagði Dagur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.