Leggjast gegn einkavæðingu á almannaeigum

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, skrifar undir yfirlýsinguna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, skrifar undir yfirlýsinguna.

Kjörnir fulltrúar Vinstri grænna og frambjóðendur hreyfingarinnar til sveitarstjórna um land allt hafa undirritað yfirlýsingu um að þeir muni ávallt beita sér gegn einkavæðingu á almannaeigum.

Í tilkynningu frá flokknum segir að tilgangurinn sé annars vegar að vekja athygli á að uppi eru hugmyndir um að hefja einkavæðingu á ýmsum eignum almennings, til dæmis heilsugæslunni og Landsvirkjun sem mikilvægt sé að stöða. Hins vegar sé tilgangurinn að undirstrika að Vinstri græn muni ekki gera málamiðlanir þegar kemur að þessum málum.

„Yfirlýsingar ráðherra og þingmanna um einkavæðingu orkufyrirtækja sem og einkavæðingu í velferðar- og almannaþjónustu gefa tilefni til að vera á varðbergi. Vinstri græn vilja að slíkar grundvallarspurningar séu ræddar í aðdraganda kosninga, ekki síður þegar kosið er til sveitarstjórna en Alþingis, því sveitarfélögin bera ábyrgð á stórum hluta velferðarþjónustunnar og eiga mörg mikilvægustu orku-, veitu- og innviðafyrirtæki landsins,“ segir í tilkynningunni.

Skora Vinstri græn á flokka og framboð að tala skýrt um áform sín í þessum málum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, skrifaði fyrst undir yfirlýsinguna.

„Orkufyrirtæki, flugvellir, vegakerfið og aðrir innviðir sem við höfum sem samfélag byggt upp saman eiga áfram að vera í sameiginlegri eigu okkar og þjóna okkur öllum,“ er haft eftir henni í tilkynningunni.

„Þetta á einnig við um almannaþjónustuna, velferðarkerfið, heilbrigðiskerfið og menntakerfið; en þar leggjum við einnig áherslu á að ef aðrir aðilar en opinberir taka að sér slíkan rekstur sé ekki tekinn arður út úr þeirri starfsemi enda á ekki að vera í boði að græða á velferðarþjónustu,“ segir hún.

Hún skorar jafnframt á aðrar stjórnmálahreyfingar og framboð að gefa frá sér sambærilega yfirlýsingu svo hægt sé að ná þverpólitískri sátt um að almannaeigur verði það áfram í sameiginlegri eigu almennings í landinu.

Edward Hujibens, sem er í 2. sæti VG á Akureyri, …
Edward Hujibens, sem er í 2. sæti VG á Akureyri, Líf Magneudóttir, 2. sæti VG í Reykjavík og Andrés Rúnar Ingason, oddviti VG í Árborg.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert