Ásatrúarmenn velta því nú fyrir sér hvort lóð sem þeim hefur verið útnefnd yrði einnig afturkölluð, næðu hugmyndir Framsóknarflokksins og flugvallarvina í Reykjavík fram að ganga. Allsherjargoði segist ekki skilja hvers vegna taka eigi múslima út fyrir sviga.
Ásatrúarfélagið er eitt þeirra trúfélaga sem, auk þjóðkirkjunnar, hafa fengið ókeypis lóðir í Reykjavík, í samræmi við sveitarstjórnarlög. Ásatrúarfélagið fékk lóð í Öskjuhlíð, búddistar við Rauðavatn, rússneska réttrúnaðarkirkjan við Mýrargötu og Félag múslíma lóð í Sogamýri.
Mikil umræða hefur skapast síðustu daga um ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur oddvita framsóknarmanna og flugvallarvina í Reykjavík um úthlutun lóðar til Félags múslima undir fyrirhugaða byggingu mosku.
Þar segist Sveinbjörg vilja að hætt verði við að úthluta lóðinni og úthlutunin þess í stað borin undir borgarbúa í kosningu. Í samtali við Vísi.is lýsti Sveinbjörg því m.a. yfir að á meðan þjóðkirkja væri í landinu teldi hún að ekki ætti að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grísku rétttrúnaðarkirkjuna.
Meðal þeirra sem lýst hafa yfir áhyggjum vegna málsins er Ingólfur Hermannsson, meðlimur í Ásatrúarfélaginu. Í bréfi sem hann sendi Sveinbjörgu í gærkvöldi spyr Ingólfur hvort stefna Sveinbjargar komi til með að hafa áhrif á lóð Ásatrúarfélagsins. Í pósti sínum segir Ingólfur meðal annars:
„Ásatrúarfélagið, sem ég er meðlimur í, fékk fyrir nokkrum árum úthlutað lóð fyrir hof eftir áratuga bið. Enn sem komið er eru þó engar framkvæmdir hafnar og því verður ekki betur séð en að við séum í sömu stöðu og Félag múslima, með úthlutaða lóð sem ekki er byrjað að byggja á.“
Í kjölfarið krefur Ingólfur Sveinbjörgu svara um það hvort hún hyggist afturkalla lóðarúthlutunina til Ásatrúarfélagsins nái hún kjöri til borgarstjórnar.
„Ummælin sett fram af vanþekkingu“
Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði telur ummælin dæma sig að miklu leyti sjálf og segir þau sett fram af mikilli vanþekkingu á íslensku stjórnkerfi og lögum. „Maður fer þá að spyrja sig hvort draga eigi til baka lóðir sem kristin trúfélög hafa fengið í gegnum tíðina, en þau eru ansi mörg. Hvar á að draga mörkin?“ spyr Hilmar.
Í samtali við fjölmiðla lét Sveinbjörg m.a. hafa eftir sér að hún teldi ekki rétt að trúfélög fengju úthlutað lóðum undir moskur eða önnur sambærileg hús. Bænahús þættu henni hins vegar annars eðlis og væri ekki mótfallin þeim.
Ingólfur segist ekki telja ljóst undir hvorn flokkinn hofið falli. „Ég átta mig ekki alveg á því í hverju munurinn felst, en ég sé ekki betur en þetta loforð hennar geti átt við hofið rétt eins og moskuna“.
„Lítið um bænahald í ásatrú“
Að sögn Hilmars allsherjargoða er lítið um bænir í ásatrú og þykir honum því ólíklegt að hofið falli í flokk bænahúsa. „Við erum lítið fyrir bænir, þannig að vafalaust myndum við dæmast úr leik út frá því. Við biðjum guð hvorki um greiða né náð svo við erum komin á erfitt svæði hvað það varðar, bænahald er ekki stór hluti af heiðni. Það er náttúrlega til gamalt íslenskt fyrirbæri sem var bænhús og tók við af blóthúsum, mögulega á hún við það og hefur bætt við einu a-i, ég veit það ekki.“
Ásatrúarfélagið er á miklu skriði, en félagsmenn eru komnir yfir 2500 og stefnt er að byggingu hofs í sumar. Vegferðin hefur þó ekki gengið hindranalaust, en fyrst sótti félagið um lóð árið 1973. Réttum 30 árum síðar, árið 2003, var formlega sótt um lóð hjá borginni og nú fyrst árið 2014 er útlit fyrir byggingu að sögn Hilmars.
„Við höfum haslað okkur völl, erum búnir að reisa minnisvarða um Sveinbjörn Beinteinsson og það er búið að samþykkja deiliskipulag þannig að við höfum komist í gegnum ýmsar búrókratískar hindranir. Ég skil hins vegar ekki af hverju á að taka múslima út fyrir sviga. Ef fólk vill breyta landslögum þannig að það verði einn siður, sem væri þá væntanlega mótmælendatrú, býst ég við að við myndum detta út. Það er hins vegar sem betur fer aðeins lengra og flóknara ferli heldur en einar íbúakosningar.“
Hér má lesa póst Ingólfs Hermannssonar í heild sinni:
Afturköllun á lóð Ásatrúarfélagsins
Sæl Sveinbjörg.
Vegna ummæla þinna um að þú hyggist afturkalla úthlutun á lóð undir mosku verð ég að spyrja þig hvort hið sama eigi við um lóð Ásatrúarfélagsins undir hof.
Ásatrúarfélagið, sem ég er meðlimur í, fékk fyrir nokkrum árum úthlutað lóð fyrir hof eftir áratuga bið.
Enn sem komið er eru þó engar framkvæmdir hafnar og því verður ekki betur séð en að við séum í sömu stöðu og Félag múslima, með úthlutaða lóð sem ekki er byrjað að byggja á.
Þess vegna verð ég hér að krefja þig svars um það hvort þú hyggist afturkalla lóðaúthlutunina til Ásatrúarfélagsins, náir þú kjöri til borgarstjórnar.
Ég sendi afrit af þessari spurningu á helstu fjölmiðla, enda á svarið beint erindi við þúsundir Íslendinga, og ég vona að þeir muni fylgja spurningu minni eftir ef það stendur á svörum.
Kær kveðja,
Ingólfur Hermannsson
„Jafnt eigi yfir alla að ganga“
Í svari sem Sveinbjörg sendi við póstinum nú síðdegis segist hún vera á móti ókeypis úthlutun lóða til trúfélaga og í því miði eigi jafnt yfir alla að ganga. Jafnframt segir hún það eiga að vera í höndum borgarbúa að velja hvort slíkar úthlutanir eigi almennt að eiga sér stað. Svar hennar má lesa í heild sinni hér að neðan.