VG og félagshyggjufólk í Kópavogi segir mikilvægt að setja aftur fé í skólakerfið og bæta skólum upp það tekjutap sem þeir hafa orðið fyrir frá hruni - það sé afar brýnt að reka öflugt og sterkt menntakerfi í bænum. Jafnframt þurfi að endurskoða húsnæðismál bæjarins frá grunni.
Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti flokksins, og Margrét Júlía Rafnsdóttir segja kosningar snúast um hverjum sé treyst til að hrinda þeim verkum í framkvæmd sem séu brýnust. Stjórnmálamenn eigi að líta á sig sem þjóna fólksins og framlengingu af vilja kjósenda.
mbl.is mun fram að kosningum birta stutt viðtöl við oddvita framboða í stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Spurningarnar eru einfaldar og fáar: Hvað er brýnt að ganga í strax að loknum kosningum – og um hvað snúast kosningarnar að þessu sinni? Þá fengu frambjóðendur að velja sér stað sem þeir útskýra af hverju varð fyrir valinu.
Ólafur og Margrét kusu að hitta okkur við Kópavogsleirur.