„Við höfum ekki á tilfinningunni að við séum að draga að okkur fylgi frá öfgahópum,“ sagði Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í þættinum Stóru málin á Stöð 2 nú í kvöld.
Talsverð umræða hefur skapast að undanförnu um lóðarúthlutunina í kjölfar þess að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti framboðs Framsóknarflokksins og flugvallarvina til borgarstjórnar, lýsti því yfir að hún teldi að afturkalla ætti lóðina í Sogamýri og leggja málið í dóm borgarbúa í sérstakri kosningu.
„Við höfum fengið á okkur ómálefnalega gagnrýni, meðal annars frá Sóleyju Tómasdóttur, sem sagði að Framsókn ætti ekki að fá neinn borgarfulltrúa,“ bætti Sveinbjörg við.
Aðspurð hver hennar skoðun væri á úthlutun á lóðum undir trúfélög sagði hún: „Ég vil að Reykvíkingar hafi eitthvað um það að segja um hvort Reykjavík eigi að gefa lóðir undir trúfélög. Ég tel það sé rétt að alþingi endurskoði lögin.“ Sagði Sveinbjörg að það ætti jafnt við um úthlutun til þjóðkirkjunnar jafnt sem annarra trúfélaga.
Björn Blöndal, oddviti Bjartar framtíðar sagði þetta hafa verið augljóst kosningatrikk frá Framsókn og flugvallarvinum. Hann sagði Sveinbjörgu hafa í tilkynningu tengt úthlutunina við húsnæðisvandann í Reykjavík.
„Hún sagði að með því að sleppa því að gefa þessa lóð séum við að laga húsnæðisvandann. Ef það er ekki að ala á ótta, þá veit ég ekki hvað er. Hvað vakir fyrir fullorðnu fólki að sitja í einhverju bakherbergi og kokka upp einhverja svona vitleysu,“ sagði Björn.
Frétt mbl.is: Ekki hægt að afturkalla lóðina