Kjörstaðir hafa nú flestir verið opnaðir og verða þeir að jafnaði opnir til klukkan 22 í kvöld. Kjörsóknir geta þó ákveðið að byrja síðar og hætta fyrr. Hér má finna upplýsingar um kjörstaði í sveitarstjórnarkosningunum 2014.
Kjósendur geta kannað hvar þeir eru á kjörskrá í sveitarstjórnarkosningunum á vefnum kosning.is. Þegar slegin er inn kennitala kemur upp nafn, lögheimili og sveitarfélag.
Í öllum fjölmennustu sveitarfélögum landsins birtast einnig upplýsingar um kjörstaði og kjördeildir. Rúmlega 30 sveitarfélög eru tengd kjörskrá með þessum hætti.
239.810 manns eru nú á kjörskrá á landinu öllu, og hefur kjósendum því fjölgað um rúmlega 6% frá því á árinu 2010. Samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanninum í Reykjavík höfðu 19.233 manns kosið utan kjörfundar á landinu öllu í gærkvöldi. Þetta eru mun fleiri en fyrir fjórum árum en þá höfðu 7.839 greitt atkvæði utan kjörfundar daginn fyrir kjördag.