Sakar Fréttablaðið um gróft einelti

Svanur Guðmundsson, kosningastjóri Framsóknar og flugvallarvina, krefst þess að ritstjórn …
Svanur Guðmundsson, kosningastjóri Framsóknar og flugvallarvina, krefst þess að ritstjórn Fréttablaðsins biðjist afsökunar vegna myndar Gunnar Karlssonar. Heiddi /Heiðar Kristjánsson

Svanur Guðmundsson, kosningastjóri Framsóknar og flugvallarvina, krefst þess að ritstjórn Fréttablaðsins biðjist afsökunar vegna myndar Gunnar Karlssonar sem birt er á leiðarasíðu blaðsins í morgun.  

Á myndinni má sjá oddvita framboðanna í Reykjavík, glaða í bragði, en þó glittir aðeins í augu Sveinbjargar þar sem hún er klædd í búning sem Svanur segir að tilheyri Ku Klux Klan-hreyfingunni.

„Með því er einn oddvitinn tekinn út og níddur á mjög óforskammaðan hátt og það á sjálfan kjördag,“ segir í yfirlýsingu Svans. „Þetta er einelti og dónaskapur í sinni grófustu mynd.“

Svanur segir að með myndbirtingunni hafi ritstjórn Fréttablaðsins opinberað hatur sitt á Sveinbjörgu og krefst þess að ritstjórnin biðjist afsökunar, bæði opinberlega og einnig persónulega til Sveinbjargar.

Yfirlýsingin í heild sinni

Undirritaður vill senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna myndar í Fréttablaðinu í dag undir Spottinu.

Í þeirri mynd eru allir frambjóðendur teiknaðir nokkuð glaðir en Sveinbjörg er sett í Ku Klux Klan búning. Með því er einn oddvitinn tekinn út og níddur á mjög óforskammaðan hátt og það á sjálfan kjördag. Þetta er einelti og dónaskapur í sinni grófustu mynd. 

Ku Klux Klan eru alþekkt samtök öfgamanna sem tóku blökkumenn af lífi með hengingum, barsmíðum og brenndu þá. Sveinbjörg er með þessari myndbirtingu sett á bekk með þessum óhugnanlegu morðingjum.

Við sem höfum unnið að þessari kosningabaráttu með Sveinbjörgu þekkjum hana og hennar kosti og virðum hana mikils fyrir hvað hún hefur verið  laus við að svara öfgum og hatursfullum áróðri sem á hana hafa dunið og látið vera að falla í sömu gryfju.

Með þessari myndbirtingu hefur ritstjórn Fréttablaðsins opinberað hatur sitt á Sveinbjörgu. Eitt er hvað fréttaflutningur hefur verið beinlínis rangur hjá þessum miðli og hversu hlutdrægur hann hefur verið gegn Framsókn og flugvallarvinum þá ganga þeir of langt með þessari myndbirtingu og ráðast á hana persónulega með því að setja hana á bekk með Ku Klux Klan.

Menn vilja að menn haldi sig við málefnin og fari ekki í manninn en með þessari mynd er verið að taka hana af lífi á færi.

Ritstjórn Fréttablaðsins á að biðjast afsökunar á þessari myndbirtingu og það strax bæði opinberlega og til hennar persónulega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka