Bætt vinnubrögð á Ísafirði

Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans á Ísafirði
Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans á Ísafirði Ljósmynd/BB

„Þetta var það sem við stefndum að, við erum með meirihluta og nú ætlum við bara að byggja á honum,“ segir Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-listans, sem náði hreinum meirihluta í bænum í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum.

Flokkurinn velti þar með úr sessi fyrri meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem setið hafði við völd um árabil. Gísli Halldór Halldórsson tekur nú við sem bæjarstjóri, en hann hefur áður setið sem formaður bæjarráðs. Gísli sat einnig sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bænum á árum áður, en hefur nú sagt skilið við hann.

Arna segir samstarfið við Gísla sem formann bæjarráðs hafa verið gott og býst hún við að vinnan á kjörtímabilinu muni ganga vel með hann í forystu.

„Leiðir okkar hafa legið saman í mikilvægum málaflokkum í bænum þannig að þetta fór vel saman. Við töldum okkur geta unnið gott starf saman á breiðum grunni og það var ástæðan fyrir því að við gerðum þetta svona.“

Ísfirðingar mega eiga von á breyttum áherslum í stjórnsýslu bæjarins að sögn Örnu og hyggst nýr meirihluti bæta venjur og vinnubrögð.

„Með nýju fólki koma nýjar venjur og vonandi betri vinnubrögð. Við boðuðum að bæta stjórnsýsluna og auka íbúalýðræði og það verða okkar fyrstu verk“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert