D-listi stærstur nema í borginni

Oddvitar framboða í Reykjavík bíða efitr að heyra nýjustu tölur …
Oddvitar framboða í Reykjavík bíða efitr að heyra nýjustu tölur í Ráðhúsinu í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Sjálfstæðisflokkurinn verður eftir þessar kosningar stærsti flokkurinn í öllum stærri sveitarfélögum landsins nema í Reykjavík þar sem Samfylkingin bætir við sig miklu fylgi. Björt framtíð er að fá mann í nær öllum sveitarfélögum þar sem flokkurinn bauð fram, en Píratar ná hvergi inn manni nema í Reykjavík.

Almennt talað eru úrslit kosninganna hagstæð Sjálfstæðisflokknum nema í Reykjavík þar sem flokkurinn fær verstu útkomu frá upphafi. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 33,6% í borgarstjórnarkosningunum 2010 sem þótti slök niðurstaða. Útkoman nú er enn verri fyrir flokkinn.

Annars staðar er útkoma Sjálfstæðisflokksins víðast hvar góð. Flokkurinn heldur meirihluta sínum í Árborg, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Vestmannaeyjum og Mosfellsbæ. Flokkurinn bætti við sig fylgi í Kópavogi og á Akranesi þar sem hann náði meirihluta. Þó flokkurinn bæti ekki við sig fylgi í Hafnarfirði er hann orðinn stærsti flokkurinn í bænum og líklegt er að hann komist þar í meirihluta.

Sjálfstæðisflokkurinn missti hins vegar meirihluta sinn í Reykjanesbæ, en er þar enn stærsti flokkurinn. Klofningur var í Sjálfstæðisflokknum í bænum þar sem einn bæjarfulltrúi flokksins bauð fram nýjan lista.

Samfylkingarmenn geta fagnað úrslitunum í Reykjavík þar sem flokkurinn næstum tvöfaldar fylgi sitt. Niðurstaðan er mikill persónulegur sigur fyrir Dag B. Eggertsson, en góðar líkur verða að teljast á að hann verði borgarstjóri á næsta kjörtímabili.

Útkoma Samfylkingarinnar í öðrum sveitarfélögum er frekar slök. Flokkurinn tapar um helming  fylgis síns í Hafnarfirði. Hann tapar um 10% prósentustigum í Kópavogi. Á Akranesi tapaði Samfylkingin um 10 prósentustigum, en flokkurinn vann mikinn sigur þar 2010. Samfylkingin bætir hins vegar við sig í Mosfellsbæ, Reykjanesbæ og á Akureyri, en útkoma flokksins í kosningunum 2010 var afar slök í þessum sveitarfélögum.

Góð úrslit hjá Bjartri framtíð

Ein skýring á útkomu Samfylkingarinnar er góð útkoma Bjartrar framtíðar. Björt framtíð bauð fram í níu sveitarfélögum og fær menn kjörna í þeim öllum nema á Ísafirði og í Snæfellsbæ. Flokkurinn fékk álíka mikið fylgi og Samfylkingin í Kópavogi og Hafnarfirði. Í Garðabæ fékk Björt framtíð talsvert meira fylgi en Samfylkingin.

Stuðningsmenn Bjartrar framtíðar eru hins vegar tæplega yfir sig ánægðir með útkomuna í Reykjavík þar sem flokkurinn er að fá minna fylgi en honum var spáð í skoðanakönnunum. Flokkurinn er ekki að fá nema helming af því fylgi sem Besti flokkurinn fékk í síðustu     kosningum.

Framsóknarflokkurinn fékk slæma kosningu í stærstu sveitarfélögunum árið 2010 og úrslitin í Reykjavík voru hrein hörmung, en flokkurinn fékk aðeins 2,7%. Framsóknarmenn geta fagnað því að vera komnir með tvo menn í borgarstjórn Reykjavíkur sem hlýtur að teljast sigur miðað við stöðu flokksins í skoðanakönnunum nokkrum vikum fyrir kjördag. Flokkurinn réttir líka úr kútnum í Kópavogi, þar sem hann var lengi með nokkuð góða stöðu, en hann tapaði þar illa árið 2010. Að öðru leyti er fátt sem kætir stuðningsmenn Framsóknarflokksins. Á Akureyri náði flokkurinn ekki að styrkja sig eins mikið og Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, en rétt náði þó inn tveimur mönnum. Útkoma flokksins í Reykjanesbæ, Akranes og Árborg er ekki góð. Framsóknarflokkurinn hefur yfirleitt ekki verið með mann í Hafnarfirði og flokknum tókst heldur ekki núna að ná þar inn manni.

Framsóknarflokkurinn fékk hins vegar ágæta úrkomu í nokkrum af minni sveitarfélögunum eins og í Skagafirði þar sem hann fékk nær helming atkvæða og náði hreinum meirihluta. Framsóknarmenn á Fljótdalshéraði og í Borgarbyggð geta líka verið ánægðir með niðurstöðuna. Á Austurlandi voru úrslitin mjög góð fyrir Framsóknarflokkinn árið 2010. Þar dregur heldur úr fylgi flokksins nú.

Slök útkoma hjá VG og Pírötum

Útkoma Vinstri-grænna er mjög svipuð og í kosningunum 2010. Flokkurinn vinnur hvergi afgerandi sigur í þessum kosningum og tapar fylgi í Hafnarfirði, Árborg og í Borgarbyggð.

Skoðanakannanir sem birtar voru fyrir kosningar bentu til að Píratar myndu fá allgóða kosningu og ná inn manni alls staðar þar sem flokkurinn bauð fram lista. Niðurstaðan er hins vegar sú að flokkurinn fær hvergi mann kjörinn nema í Reykjavík, þar sem þeir náðu naumlega inn manni. Svo er að sjá sem aðeins hluti þeirra sem lýstu yfir stuðningi við flokkinn í skoðanakönnunum hafi mætt á kjörstað.

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum …
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum náðu að halda meirihlutanum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
S. Björn Blöndal oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík í Ráðhúsinu …
S. Björn Blöndal oddviti Bjartrar framtíðar í Reykjavík í Ráðhúsinu í kvöld. Björt framtíð fær kjörna menn í nær öllum sveitarfélögum þar sem flokkurinn bauð fram. mbl.is/Una Sighvatsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert