Kjósendur snerust Sveinbjörgu til varnar

Sveinbjörgu B. Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina var vel fagnað …
Sveinbjörgu B. Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknar og flugvallarvina var vel fagnað er hún mætti á kosningavöku flokksins í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég sé þetta þannig að þessi fallni meirihluti geti nokkurn veginn valið hvort hann semur við VG eða Pírata. Þetta veikir vafalaust stöðu Sóleyjar Tómasdóttur, sem hefur lýst yfir miklum áhuga á að komast í meirihlutasamstarfið,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur, en Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, og Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, stefna á að hittast í dag og ræða næstu skref í kjölfar niðurstöðu kosninganna í morgun.

„Það er óljóst hvor flokkurinn verður fyrir valinu, en þetta setur Sóleyju í veika samningsstöðu.“

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur nái ekki saman

Stefanía segir engan grundvöll virðast vera fyrir tvo stærstu flokkana, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokk, til þess að mynda meirihluta.

„Ég sé ekki að þessir tveir flokkar nái saman eins og staðan er núna, þótt hlutirnir geti auðvitað breyst á kjörtímabilinu eða eftir næstu kosningar. Hins vegar virðist hafa verið mjög gott á milli flokkanna tveggja í hinum fallna meirihluta á kjörtímabilinu,“ segir Stefanía. 

„Það er reyndar að koma nýtt fólk inn fyrir Bjarta framtíð núna, nokkurs konar „juniorar“. Þetta hentar Samfylkingunni ágætlega, enda vann hún kosningasigur og er ráðandi flokkurinn.“

Hjálpaði léleg kjörsókn Sjálfstæðisflokknum?

Kjörsókn í Reykjavík var heldur dræm, en talsvert færri mættu á kjörstað í gær en í sveitarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum. Stefanía telur þessa staðreynd hafa komið sér ágætlega fyrir Sjálfstæðisflokkinn, en hann fékk betri kosningu en skoðanakannanir höfðu bent til.

„Kjörsóknin hefur allavega ekki komið niður á Sjálfstæðisflokknum, þessar niðurstöður eru reyndar ekki langt frá því sem ýmsar kannanir bentu til, en þó aðeins betri. Fylgi flokksins er samt sem áður talsvert lakara í borginni en í nágrannasveitarfélögunum.“

Fylgi Framsóknarflokksins óx nokkuð á síðustu metrunum og endaði flokkurinn með 10,7 prósent atkvæða og tvo borgarfulltrúa. Stefanía segir ýmislegt spila inn í, en mikil fjölmiðlaumfjöllun um framboðið og oddvitann, Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur, var stór áhrifavaldur að mati hennar.

Yfirlýsingar um mosku snertu streng

Stefanía segir að Framsóknarflokkurinn hafi verið mikið í umræðunni, allt frá því fyrir páska á þessu ári. Fyrst hafi komið upp vangaveltur um Guðna Ágústsson sem hugsanlega oddvita flokksins í borginni en síðan hafi nýr listi Framsóknar og flugvallarvina verið kynntur og fengið mikla athygli. 

„Yfirlýsingar Sveinbjargar um moskuna hafa síðan vafalaust snert einhvern streng og málið var sérstaklega mikið í fjölmiðlum. Árangurinn er því helst þessu umtali að þakka og ég held að á lokametrunum hafi einhverjir jafnvel snúist til varnar fyrir Sveinbjörgu og greitt flokknum nokkurs konar samúðaratkvæði,“ segir Stefanía. 

Niðurstöður kosninganna eru þær bestu sem Framsóknarflokkurinn hefur séð í borgarstjórnarkosningum í 40 ár, þrátt fyrir að fylgi flokksins hafi verið umtalsvert meira meðal borgarbúa í alþingiskosningunum fyrir ári.

„Fylgið sem flokkurinn fékk í Reykjavík er lélegra en það sem hann fékk í borginni í alþingiskosningunum. Þetta er samt sem áður auðvitað mikil hækkun frá fyrstu skoðanakönnunum og bestu niðurstöður Framsóknarflokksins í borgarstjórnarkosningum í 40 ár. Landsmálin og aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum spila vafalaust að einhverju leyti inn í og eru partur af stemningunni,“ segir Stefanía. 

Sjálfstæðisflokkur verði ekki í meirihluta í Hafnarfirði

Sjálfstæðisflokkurinn er langstærsti flokkurinn í Hafnarfirði eftir kosningar, en hann hlaut 35,8% atkvæða og fimm fulltrúa af ellefu. Stefanía segir boltann vera hjá Bjartri framtíð þegar kemur að myndun meirihluta.

„Mér finnst líklegt að Samfylking, Björt framtíð og Vinstri grænir skapi í meirihluta í Hafnarfirði, nema auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að hafa samband við Bjarta framtíð um samstarf. Þetta er samkeppni um þann flokk og fer í raun allt eftir því í hvaða átt þeir hallast.“

Samfylkingin tapaði nokkru fylgi í bænum og segir Stefanía fall meirihlutans geta haft áhrif á ákvörðun Bjartrar framtíðar.

„Það getur verið varhugavert fyrir nýtt framboð að fara í samstarf með meirihluta sem er óvinsæll og féll, en Samfylking missti í raun fylgi sitt til Bjartrar framtíðar. Mér finnst þó meiri líkur á að þessir þrír flokkar fari saman heldur en Sjálfstæðisflokkurinn og Björt framtíð.“

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut einnig góða kosningu í Kópavogi en hann fékk 39,3% atkvæða og fimm bæjarfulltrúa. Stefanía segir allt benda til þess að samstarf myndist milli sjálfstæðismanna og Framsóknar.

„Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað sigurvegari kosninganna í Kópavogi og Framsókn er með prýðilega endurkomu. Það hefur andað köldu milli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í Kópavogi og Samfylkingin bíður afhroð í ár. Mér finnst þ.a.l. allar líkur á því að meirihlutinn verði myndaður af Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki.“

Miklar sviptingar á Akureyri

L-listinn, listi fólksins, tapaði miklu fylgi á Akureyri, en flokkurinn kom nýr inn í bæjarstjórnmálin í síðustu kosningum og vann stórsigur. Niðurstaðan var hins vegar önnur í ár og flokkurinn fékk aðeins 21,1% atkvæða og tvo bæjarfulltrúa.

„L-listinn var ekki Besti flokkurinn, en samt í svipuðum dúr. Þetta var nýtt framboð á Akureyri sem kom, sá og sigraði og fékk t.a.m. betri kosningu á Akureyri en Besti flokkurinn í Reykjavík. Þetta var svona framboð fólksins, en hefur kannski ekki notið nægilegra vinsælda þegar leið á kjörtímabilið.“

Stefanía segir að niðurstaðan á Akureyri boði hefðbundnara ástand í bæjarstjórnmálunum.

„Sjálfstæðisflokkurinn hrundi í bænum í aðdraganda síðustu kosninga, oddviti flokksins í bænum sætti t.a.m. mikilli gagnrýni vegna fjármála og fylgið algjörlega hrundi. Þetta fylgi hefur flokkurinn hins vegar endurheimt að hluta í kosningunum og stemningin í bæjarpólitíkinni er því kannski að færast nær „eðlilegu“ ástandi.“

Framboð fólksins að deyja?

Kosning Bjartrar framtíðar í Reykjavík var nokkru lakari en sú sem Besti flokkurinn hlaut í kosningunum fyrir fjórum árum og Næstbesti flokkurinn í Kópavogi fékk jafnframt slæma útreið, en hann hlaut aðeins 3,2% atkvæða. Stefanía segir það ekki óalgengt að ný framboð eigi erfitt með að halda fylgi sínu til lengdar.

„Sagan segir okkur að ný framboð eiga oft ansi erfitt með að halda stöðu sinni til frambúðar. Langlífasta nýja framboðið var Kvennalistinn sem kom mönnum inn í fjögur kjörtímabil. Oftar en ekki er líftími svona framboða hins vegar öllu styttri, kannski tvö kjörtímabil,“ segir Stefanía. 

„Þessir flokkar eru oft nokkurs konar einstaklingsframtak, hafa lítið bakland og fjárskortur háir þeim oftar en ekki. Flokkarnir hafa ekki þá innviði sem þarf til þess að halda framboðinu lifandi til lengri tíma.“

Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur
Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur mbl.is/Styrmir Kári
Samfylkingin er stærst í Reykjavík eftir kosningar gærdagsins
Samfylkingin er stærst í Reykjavík eftir kosningar gærdagsins mbl.is
Árni Páll Árnason og Dagur B. Eggertsson féllust í faðma …
Árni Páll Árnason og Dagur B. Eggertsson féllust í faðma á kosningavöku Samfylkingar í Stúdentakjallaranum. mbl.is/Ómar Óskarsson
Stefanía telur líklegt að Samfylking, Björt framtíð og Vinstri grænir …
Stefanía telur líklegt að Samfylking, Björt framtíð og Vinstri grænir myndi meirihluta í Hafnarfirði. Rósa Guðbjartsdóttir er oddviti Sjálfstæðisflokksins í bænum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert