„Niðurstöðurnar í Reykjavík koma ekkert sérstaklega á óvart þar sem það var ljóst að Framsóknarflokkurinn var að sækja aðeins í sig veðrið síðustu dagana fyrir kosningarnar. Það er heldur ekki ósennilegt að það hafi haft áhrif á niðurstöðuna hversu dræm kjörsóknin var,“ segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ sem framkvæmdi skoðanakannanir fyrir Morgunblaðið í vikunum fyrir kosningar.
Í síðustu könnun sem birtist fyrir kosningar var Framsóknarflokkurinn með 5,5% fylgi, Píratar með 7,5% og Samfylkingin með 37,7%. Guðbjörg segir að það væri áhugavert að skoða hvaða hópar það séu sem skila sér á kjörstað. „Maður hefur ímyndað sér það að það séu sjálfstæðismennirnir sem eru líklegri til að mæta á kjörstað frekar en t.d. Samfylkingarfólkið, það er svona ýmislegt sem bendir til þess.“ Samfylkingin hlaut 31,9% atkvæða í Reykjavík í kosningunum í gær.
„Það er kannski helst þessi mikli toppur Samfylkingarinnar sem okkur finnst áhugaverður, þeir voru farnir að mælast alveg upp yfir 37%, bæði hjá okkur og hjá Gallup, en það var ekki að skila sér alveg. Mér finnst ekki ólíklegt að kjörsóknin hafi haft áhrif á það.“
Þá sé einnig mikilvægt að greina líka hverjir það séu sem mæta ekki á kjörstað. „Mín tilgáta er sú að Sjálfstæðisflokkurinn sé oft sterkari í eldri aldurshópunum, og við höfum séð að yngri aldurshóparnir mæta síður á kjörstað. Út frá því þarf maður ekkert að vera sérstaklega hissa á því hvernig niðurstaðan varð miðað við kannanirnar,“ segir Guðbjörg.
Fylgi Pírata mældist lengi vel í kringum 10%, en var dottið niður í kringum 7,5% í síðustu könnuninni fyrir kosningar. Fór svo að flokkurinn hlaut 5,9% atkvæða og einn mann kjörinn. „Píratarnir hafa líka verið að mælast helst til of hátt hjá okkur. Það er kannski líka út af þessum aldursprófíl. Það er yngra fólkið sem er líklegra til að segjast kjósa Pírata og það er það fólk sem mætir illa á kjörstað. Svo okkur finnst almennt Píratar vera að mælast of hátt í mælingum okkar,“ segir Guðbjörg.
Björt framtíð hlaut 15,6% og tvo menn kjörna í borginni í kosningunum í gær. Í könnunum Félagsvísindastofnunar á undanförnum mánuðum hefur fylgi flokksins sveiflast töluvert, en þó lækkað stöðugt úr 24,8% hinn 24. mars í 19,9% tveimur dögum fyrir kosningar. „Síðustu kannanirnar bentu nú til þess að það yrðu tveir menn inni hjá Bjartri framtíð þannig að niðurstaðan er ekki að koma sérstaklega á óvart miðað við það sem okkur sýndist vera að gerast við fylgi flokksins,“ segir Guðbjörg.