Árangur ríkisstjórnarinnar hafði áhrif

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra telur að ein af ástæðunum fyrir góðu gengi ríkisstjórnarflokkanna í sveitarstjórnarkosningunum í gær sú sé að almenningur sé byrjaður „að skynja árangurinn af fyrsta ári ríkisstjórnarinnar. Það er allt að þróast til betri vegar í samfélaginu,“ segir hann.

Rætt var við Sigmund Davíð í þættinum Eyjan á Stöð 2 í kvöld.

Gengi ríkisstjórnarflokkanna beggja, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, var betri í kosningunum í gær en flestar skoðanakannanir höfðu gert ráð fyrir. 

Í Reykjavík hlaut Framsókn 10,7% atkvæða og fékk tvo fulltrúa kjörna í borgarstjórn. Flokkurinn hefur ekki náð eins góðum árangri í borginni í langan tíma. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 25,7% atkvæða í borginni og fékk fjóra borgarfulltrúa. Um tíma bentu skoðanakannanir til þess að flokkurinn myndi aðeins fá þrjá fulltrúa.

Sigmundur Davíð benti einnig á að báðir flokkarnir, að minnsta kosti Framsóknarflokkurinn, hefðu góða stefnu í þeim sveitarfélögum þar sem þeir buðu fram. „Ég held að það hafi augljóslega hjálpað til,“ sagði hann.

„Auðvitað verður það alltaf þannig í sveitarstjórnarkosningum að þetta er mjög staðbundið. Maður getur séð hlutina fara í ólíkar áttir. En heildarniðurstaðan hjá okkur og Sjálfstæðisflokknum er mjög góð og það stafar af því að okkar fólk hefur verið að ná árangri vítt og breitt um landið,“ sagði forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert