Sigmundi Davíð misboðið

Sigmundur Davíð forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir sér misboðið að fólki skuli detta í hug að setja rasistastimpil á flokkinn eftir umræðu um lóðamál fyrir mosku í borginni fyrir kosningar. Oddviti flokksins í borginni nefndi það fyrir kosningar að til greina kæmi að draga til baka úthlutun lóðar fyrir mosku í Sogamýri.

Í þættinum Eyjunni á Stöð 2 sagði Sigmundur að það að gera upp á milli trúarbragða væri ekki í anda stefnu flokksins. Hann sagðist telja að það hefði verið það sem frambjóðendur Framsóknar í borginni voru að ræða um í aðdraganda kosninganna.

Hann sagðist geta skilið gagnrýni á staðsetningu lóðar fyrir mosku sem múslímum á Íslandi hafi verið úthlutað. „Ég færist nær því að þetta sé ekki heppileg staðsetning heldur ætti áfram að vera grænt svæði.“

Sagði Sigmundur óþolandi að rasistastimpill væri nú á flokknum. Hann sagði að strax og eitthvað væri rætt opinberlega sem hægt væri að tengja við „þennan málaflokk“ færi umræðan út í öfgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert