Úrslitin mikið áfall fyrir Jón Gnarr

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að niðurstöður borgarstjórnarkosninganna í gær hafi verið mikið áfall fyrir sitjandi borgarstjóra, Jón Gnarr, og Besta flokkinn.

„Það er bæði makalaust og merkilegt og mér finnst eins og enginn hafi fjallað um það. Meirihlutinn féll og niðurstaðan hlýtur að vera mikið áfall fyrir sitjandi borgarstjóra, sem menn hafa skilgreint sem vinsælasta borgarstjóra allra tíma, þrátt fyrir að hann sé sá borgarstjóri sem hefur notið hvað minnst trausts flestra borgarstjóra,“ sagði Hanna Birna í þættinum Eyj­unni á Stöð 2 í kvöld.

Sam­fylk­ing­in fékk 31,9% at­kvæða í borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­un­um og fimm menn kjörna. Björt framtíð fékk tvo menn kjörna, Vinstri græn einn mann og Pírat­ar einn.

„Það trúði því enginn fyrir viku eða einum sólarhring að það gæti gerst. Að meirihlutinn myndi falla. Flokkur borgarstjórans fer úr 35% fylgi í 15%. Það hefðu verið talin tíðindi ef það væri einhver annar borgarstjóri en þessi borgarstjóri,“ sagði Hanna Birna jafnframt.

Björn Ingi Hrafnsson, stjórnandi þáttarins, spurði hana þá hvort hún teldi að Jón Gnarr hefði fengið sérmeðferð sem borgarstjóri.

„Að sjálfsögðu. Það hefur enginn nálgast Jón Gnarr eins og borgarstjóra. Það hefur enginn nálgast hann eins og stjórnmálamann. Menn hafa nálgast hann eins og skemmtikraft og haft gaman af því. Hann er skemmtilegur og hefur verið með bráðskemmtilega innkomu. En nú erum við að sjá fram á að það er verið að mynda fjögurra flokka meirihluta í Reykjavík,“ sagði Hanna Birna.

Og það eftir kjörtímabilið sem átti að hafa verið „svona ótrúlega farsælt,“ bætti hún.

Fyrst og síðast persónulegur sigur Dags

„Það sem gerist er það að Reykvíkingar fara ekki á kjörstað eftir þetta tímabil. Besti flokkurinn ætlaði einhvern veginn að vekja áhuga almennings á kosningum. Menn hafa aldrei farið síður til kosninga en nú. Og Björt framtíð fær tvo fulltrúa.

Þetta er persónulegur sigur Dags B. Eggertssonar fyrst og síðast. Þetta er ekki sigur þessa meirihluta og sannarlega ekki sigur stefnunnar sem hann stóð fyrir. Nú erum við að horfa fram á það að fá fjögurra flokka meirihluta og trúið mér: Það verður vinstrisinnaðri meirihluti en við höfum séð í Reykjavík í langan tíma.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði litlu við þetta að bæta.

Dag­ur B. Eggerts­son, odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, hafði áður sagt að á morgun myndi hann hitta odd­vita Bjartr­ar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata og ræða mynd­un nýs meiri­hluta í borg­inni. 

Jón Gnarr borgarstjóri.
Jón Gnarr borgarstjóri. mbl.is/ Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert