„Við getum unað ágætlega við þessar niðurstöður,“ segir Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, um niðurstöður borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Hún verður eini fulltrúi flokksins í borgarstjórn á kjörtímabilinu.
Samfylkingin er stærsti flokkurinn í borgarstjórn Reykjavíkur með fimm borgarfulltrúa og 31,9% atkvæða. Björt framtíð er með tvo fulltrúa og 15,6% atkvæða, Framsókn með tvo fulltrúa og 10,7% atkvæða, Vinstri græn með 8,3% atkvæða og Píratar með einn fulltrúa og 5,9% atkvæða. Hvorki Dögun né Alþýðufylkingin fengu kjörinn fulltrúa í borgarstjórn.
Sóley segir að flokkurinn hafi verið í erfiðri stöðu á kjörtímabilinu sem er að líða með klofinn borgarstjórnarflokk í minnihluta með vinsælum meirihluta. Ekki sé auðvelt að vinna sig upp úr slíkri stöðu. „Við vorum hrikalega dugleg með frábært fólk í kosningabaráttunni og munum vinna þétt saman á þessu kjörtímabili,“ sagði Sóley í samtali við mbl.is.
Sóley segist ekki vilja taka afstöðu strax til þess hvort hún myndi vilja starfa með Samfylkingunni og Bjartri framtíð í meirihluta í borgarstjórn, ef til þess kæmi.
En gætir þú hugsað þér að starfa með Framsókn? „Nei, það kemur ekki til greina,“ segir Sóley.