Júlíus Vífill oftast strikaður út

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Lítið var um útstrikanir af listum í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík um helgina. Mest var strikað yfir konur, en Júlíus Vífill Ingvarsson var þó sá frambjóðandi sem var oftast strikaður út af lista.

Alls greiddu 56.896 Reykvíkingar atkvæði í borgarstjórnarkosningunum. Þar af voru 1.604 sem notuðu blýantinn í annað og meira en bara að haka við listabókstafinn sem þeim hugnaðist best, eða 2,82% kjósenda.

Athygli vekur að hjá öllum framboðum er oftast strikað yfir konur, nema hjá Sjálfstæðisflokknum, þar sem karlar skipuðu efstu 3 sætin.

Júlíus Vífill Ingvarsson, sem skipar 2. sæti D-listans, hlýtur þann vafasama heiður að vera sá frambjóðandi sem oftast var strikaður út, því rúmlega helmingur þeirra kjósenda flokksins sem tjáðu óánægju sína með þessum hætti beindu henni gegn Júlíusi Vífli.

Þó voru það ekki nema 3,3% kjósenda Sjálfstæðisflokksins sem strikuðu yfir nafn hans. Þetta er talsvert minna um útstrikanir en í kosningunum 2010, þegar 3.800 kjósendur Sjálfstæðisflokksins strikuðu yfir Gísla Martein Baldursson, og ríflega 1.000 kjósendur strikuðu yfir Júlíus Vífil.

Hjá tveimur flokkum var mest strikað yfir sjálfan oddvitann, eða hjá VG þar sem 2,4% kjósenda listans strikuðu yfir Sóleyju Tómasdóttur, og hjá Framsókn og flugvallarvinum þar sem 0,61% kjósenda strikuðu yfir Sveinbjörgu B. Sveinbjörnsdóttur.

Björk Vilhelmsdóttir er sá frambjóðandi Samfylkingar sem flestir strikuðu yfir, eða 0,70% kjósenda flokksins. Þá strikuðu 0,61% kjósenda Bjartrar framtíðar yfir nafn Ilmar Kristjánsdóttur, og 0,43% kjósenda Pírata strikuðu Þórlaugu Ágústsdóttur út.

Útstrikanir og breytt atkvæði í borgarstjórnarkosningunum 2014
Útstrikanir og breytt atkvæði í borgarstjórnarkosningunum 2014
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert