Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, kvaddi í gær vettvang borgarmálanna, er hann sat sinn síðasta fund í borgarstjórn, en nýkjörin borgarstjórn tekur við eftir tvær vikur. Tók hann til máls í lok fundar.
„Fyrir mér er þetta svona eins og verið sé að ljúka sambandi, vegna þess að við höfum verið að þroskast sitt í hvora áttina,“ sagði borgarstjórinn, sem sagði embættisskyldum sínum þó ekki enn lokið, þar sem enn væri verið að tengja sig við myndir á Facebook þegar fólk þyrfti að kvarta yfir einhverju, eins og til dæmis ælu á Snorrabraut.
Þakkaði Jón öllum borgarfulltrúum fyrir samstarfið, en bað þau jafnframt afsökunar á þeim tímum, þegar hann hefði hugsanlega sært þau með ómálefnalegri gagnrýni, eða með því að alhæfa um eitthvað sem ekki hefði átt við rök að styðjast.