Hugsanlega fyrirboði breyttra tíma

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is/Ragnar Axelsson

„Hingað til hefur verið litið á Bjarta framtíð sem eins konar fylgihnött Samfylkingar og að ganga mætti út frá samstarfi þeirra flokka tveggja sem vísu á öllum vígstöðvum. Nú er hugsanlega að koma í ljós að svo sé ekki.

Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðunni Evrópuvaktin í dag þar sem hann gerir að umfjöllunarefni sínu viðræður Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar um meirihlutasamstarf í bæjarstjórnum Kópavogs og Hafnarfjarðar.

Styrmir segir að þetta kunni að vera fyrirboði breyttra tíma. Hann rifjar upp samstarf Sjálfstæðisflokksins við Samfylkinguna í ríkisstjórn 2007-2009 sem hafi ekki reynst farsælt sem aftur hafi komið fáum á óvart.

„Þetta sjónarmið er áreiðanlega ráðandi innan beggja flokkanna. Sjálfstæðismenn hafa af einhverjum ástæðum verið áhugalausir um samstarf við VG og það sama á við um VG gagnvart Sjálfstæðisflokki. Þetta hefur þýtt að Sjálfstæðisflokkur hefur í raun ekki átt nema einn kost - samstarf við Framsóknarflokk. Nú má vera að Kópavogur og Hafnarfjörður séu að breyta þessari mynd. Það eru veruleg tíðindi á landsvísu.“

Nú síðast bárust fréttir af því að viðræður um meirihlutasamstarf væru hafnar á milli Sjálfstæðisflokksins og Bjartrar framtíðar á Akranesi.

Pistill Styrmis Gunnarssonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert