Lögheimilisskráningin kærð

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir á kosninganótt.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir á kosninganótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýslumanninum í Reykjavík hefur borist kæra vegna lögheimilisskráningar Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins og flugvallarvina. Þetta staðfestir Guðmundur Sophusson, sýslumaður í Reykjavík, í samtali við mbl.is.

Kærandi er Björgvin E. Vídalín, stjórnarformaður Dögunar í Reykjavík. Fram kom í fjölmiðlum fyrr í vikunni að hann hefði í hyggju að kæra málið sem einstaklingur en málið snýst um það hvort lögheimili Sveinbjargar sé í Reykjavík eða Kópavogi. Samkvæmt lögum þurfa frambjóðendur í sveitarstjórnarkosningum að hafa lögheimili í þeim sveitarfélögum þar sem þeir bjóða sig fram.

Sveinbjörg hefur skýrt málið með þeim hætti að hún hafi verið búsett í Reykjavík en í lok síðasta árs misst leiguhúsnæði þar og fengið tímabundið húsnæði í Kópavogi. Lögheimilið hafi hins vegar verið áfram skráð í Reykjavík og nokkrum vikum fyrir kosningar hafi hún flutt það á heimili unnusta síns í borginni þar sem hún hafi þá varið ekki minni tíma en í Kópavogi. Hún liti ennfremur á sig sem Reykvíking.

Guðmundur segir að málið sé komið í farveg hjá embættinu. Þriggja manna úrskurðarnefnd lögfræðinga hafi verið skipuð í samræmi við lög til þess að fara yfir málið. Nefndin hafi fengið öll gögn varðandi málið og muni fara yfir það.

Önnur kæra vegna borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík barst embættinu fyrir kosningar sem sneri að því að ekki hefði verið staðið rétt að vali á fulltrúum í yfirkjörstjórn í borginni. Þeir hefðu verið skipaðir en ekki kosnir. Spurður um afdrif hennar segir Guðmundur að henni hafi verið vísað frá og ekki borist aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert