Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups fyrir júnímánuð. Flokkurinn mælist með 25,3% stuðning ef kosið væri til Alþingis nú. Stuðningur við Framsóknarflokkinn heldur áfram að dala en flokkurinn mælist með 12,7% stuðning.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Fram kemur að 18,2% styðji Samfylkinguna, 15,7% Bjarta framtíð og 12,8% styðji Vinstri græna. Þá segjast 8,1% myndu kjósa Pírata og rúmlega 7% myndu kjósa aðra flokka en eiga sæti á Alþingi.
Ríkisstjórnarflokkarnir njóta samanlagt 38 prósenta fylgis, að því er fram kemur. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 27% atkvæða í kosningunum í fyrra en Framsóknarflokkurinn 24%.
Um er að ræða netkönnun sem var gerð dagana 28. maí til 29. júní 2014. Heildarúrtak var 6.985 og var þátttakan 58,8%