Hvað var Ólafur Ragnar að meina?

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti …
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands við þingsetninguna í morgun.

Ætlar Ólafur Ragnar Grímsson að bjóða sig fram aftur - eða ekki? Netverjar hamast við að reyna að túlka orð hans í þingsetningarræðunni í morgun.

Þar sagði Ólafur Ragnar: „Þegar ég er nú sam­kvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér að setja Alþingi í síðasta sinn flyt ég þing­inu í senn djúpa virðingu mína og ein­læg­ar þakk­ir.“

Frétt mbl.is: Varar við breytingu á stjórnarskrá

 Einhverjir telja að nú sé Ólafur búinn að taka af allan vafa um að hann muni bjóða sig fram að nýju. Aðrir segja að hann hafi aðeins rætt um það umboð sem hann nú hefur, hann gæti boðið sig fram aftur og fengið nýtt umboð.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkgingarinnar, spyr t.d. á Facebook-síðu sinni: „Við þingsetningu kvaddi forsetinn þingið og þakkaði samstarfið. Nú verður spennandi að sjá hverjir stíga fram. Hvað haldið þið?“

Flestir þeir sem þar svara koma ekki með tillögur að forsetaefni, heldur benda á að forsetinn hafi ekki talað skýrt og greinilega um framhaldið.

Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar segir m.a.: „Ég held að við verðum að spyrja hann beint hvað hann átti við. Hann sagði: „Þegar ég nú, samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér, set Alþingi í síðasta sinn,“ Vill hann endurnýjað umboð eða ætlar hann ekki að falast eftir því? Það er efinn...“

Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi og stjórnarformaður Vefpressunar, segir á sinni Facebook-síðu að Ólafur Ragnar sé meistari hins óræða texta. „En svo þakkaði hann öllu samstarfsfólki og starfsfólki þingsins gegnum árin og það var svona heilmikill kveðjutónn í þessu.“

Víða í umræðum á Facebook er það m.a. sett fram, væntanlega meira í gríni en alvöru, að Ólafur hafi talað skýrt þegar hann sagðist vera að setja Alþingi í síðasta sinn. Það þýddi þó ekki að hann yrði ekki áfram forseti. Hann ætli sér hins vegar að leggja þingið niður.

Bragi Valdimar Skúlason, Baggalútur og sjónvarpsmaður segir m.a. á sinni Facebook-síðu: „Krakkar, þið eruð að lesa þetta vitlaust. Ólafur Ragnar ætlar að losa sig við Alþingi á næsta ári.“

Sprengdi Ólafur fyrirætlanir stjórnarinnar?

Egill Helgason, sjónvarpsmaður, skrifar í pistli á Eyjunni að skrítið sé að kjósa forseta samhliða kosningum um breytingar á stjórnarskrá, líkt og Ólafur Ragnar benti á í sinni ræðu. 

„Það er svo athyglisvert í þessu sambandi að forsetakosningar eru ráðgerðar 25. júní á næsta ári,“ skrifar Egill. „Þá verður væntanlega kosið um stjórnarskrárbreytingar líka. Þetta verður í miðju Evrópumóti í fótbolta þar sem Íslendingar hafa unnið sér þátttökurétt í fyrsta skipti. Forsetakosningar, stjórnarskrárkosningar, fótbolti – og allt um hásumar. Kannski dálítið stór pakki?“

Það er reyndar spurning hvort Ólafur Ragnar hafi ekki sprengt fyrirætlanir stjórnarinnar í loft upp með þessari ræðu sinni – það verður að segjast eins og er að í henni er talsvert af pólitísku sprengiefni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka