Ólafur Ragnar Grímsson, forseti, hyggst bíða með að tilkynna ákvörðun sína um það hvort hann býður sig fram til annars kjörtímabils sem forseti Íslands þar til í nýársávarpi sínu. Þetta sagði Ólafur í viðtali í þætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi, í morgun.
Hann sagði það hafa verið einlæg orð sín þegar hann boðaði það fyrir síðustu kosningar að hann hygðist ekki bjóða sig fram aftur en hann hafi fengið slíkar áskoranir frá almenningi um að bjóða sig fram aftur að hann hafi séð sig knúinn til þess.
Síðustu ríkisstjórn sagði Ólafur hafa gengið fram „með offorsi í því að umbylta núverandi stjórnarháttum sama hvað tautar og rólar.“ Í því árferði sagði hann fólk hafa vísað til ákveðinnar óvissu, sem hann hafi sjálfur vísað til í kjölfarið, sem hafi verið uppi árið 2012 sem hann skilgreindi í þrjá meginhluta.
Í fyrsta lagi hafi það verið Icesavemálið sem hann sagði hafa „klofið þjóðina í herðar niður.“ Þá hafi algjör óvissa verið uppi um framgang stjórnarskrárbreytinga í sambandi við tillögur Stjórnlagaráðs og loks hafi verið uppi vafi um eðli samskipta Íslands við nágrannaþjóðir vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.
Fyrrgreinda óvissu sagði Ólafur ekki lengur vera uppi. Aðildarumsóknarferlinu hafi verið hætt og haldi ekki áfram nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, meiriháttar stjórnarskrárbreytingar séu ekki á döfinni og Icesave málinu sé nú lokið.
Ólafur ítrekaði það í þættinum að hann væri, og hefði verið lengi, fylgjandi ákveðnum stjórnarskrárbreytingum og tilgreindi sérstaklega þjóðaratkvæðagreiðslur og það að auðlindir þjóðarinnar væru festar í þjóðareign. Hann sagði það þó „erfiða og hæpna vegferð að gerbreyta stjórnarskránni,“ líkt og reynt hafi verið af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann sagði hana hafa rekið málið af miklum ákafa og „óháð því hvað er skynsamlegt að gera.“
„Það að finna svo sökudólga á lokametrunum, það er bara sögufölsun,“ sagði Ólafur og vísaði til nýlegra orða Jóhönnu um það að Árni Páll Árnason hafi verið ábyrgur fyrir endalokum stjórnarskrármálsins.
Ferli stjórnarskrárbreytinganna hefði enda verið mjög ábótavant að sögn Ólafs og taldi þar ýmislegt til. Miklum tíma hafi verið sóað í málinu og það legið í lágdeyðu langtímum saman. Þá hafi kosningu fulltrúa á stjórnlagaþing verið haldið illa á lofti í nafni baráttumála vinstri flokkanna: Persónukjörs og því að landið allt væri eitt kjördæmi.
Ólafur var spurður út í samband hans við Vladimir Pútín, forseta Rússlands. „Ég myndi ekki segja að við værum vinir,“ sagði Ólafur en sagðist þó hafa átt við hann ýmisleg samskipti á opinberum vettvangi og átt við hann opinskáar umræður um mörg málefni.
Hann sagðist ekki hafa rætt viðskiptabann Rússa á íslenskar vörur við Pútín beint en hafi rætt málið við aðra á vegum rússneska ríkisins. Ólafur sagði í því samhengi mikilvægt að hafa söguna í huga og rifjaði upp viðskipti Íslands og Rússlands á liðinni öld þar sem m.a. hafi bandaríska herstöðin verið rekin með olíu fenginni frá Sovétríkjunum.
Þá væri það mikilvægt fyrir þjóðina, og stjórnvöld, að mynda með sér stefnu um það á hvaða grundvelli Ísland ætti að taka þátt í viðskiptaþvingunum. Stórveldin hefðu ýmislegt fyrir sér í valdabrölti sínu og Bandaríkjamenn hefðu til dæmis ráðist í viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna þess að þeir vildu ekki fara út í aðrar aðgerðir og bannið snerti hagsmuni þeirra lítt.