„Hef vissulega mínar hugmyndir“

Stefán Jón Hafstein
Stefán Jón Hafstein mbl.is/Styrmir Kári

„Ég hef fengið ábendingar og fyrirspurnir frá í sumar um framboð, en mér hefur fundist umræðan um forsetakosningarnar mjög þröng og ekki gefa gaum að því tækifæri sem við höfum næsta ár að breyta stjórnmálamenningunni og hefja sókn til umbóta í þeim efnum. Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð og beita áhrifum embættisins fyrir almannahagsmuni. Nú er kominn tími til að breyta að mínu mati. Þegar þjóðin hefur beinan aðgang að kjöri milliliðalaust er ábyrgðin okkar.“

Þetta segir Stefán Jón Hafstein í samtali við mbl.is en hann hefur ákveðið að kanna jarðveginn fyrir mögulegt framboð til embættis forseta Íslands. Hann hefur stofnað hóp á samfélagsmiðlinum Facebook undir heitinu „Hlutverk forseta“ sem umræðuvettvang þar sem fólk geti velt fyrir sér hlutverki forseta Íslands á næsta kjörtímabili áður en forsetakosningarnar yrðu persónugerðar. Hann hafi talsvert hugsað um þau tækifæri sem felist í að virkja samfélagsmiðlana fyrir slíka umræðu með jákvæðum formerkjum.

„Hvað viljum við með embættið? Það er spennandi að nýta svona miðla til lýðræðislegra tilrauna og búa til vettvang utan við valdastofnanir, flokka og fastmótaðar hugmyndir. Okkur hættir til þess, Íslendingum, að persónugera alla umræðu. Ég ákvað að taka frumkvæði í því að færa umræðuna og hugmyndaflæðið á nýjan reit,“ segir hann ennfemur. Mikilvægara sé að fá umræðuna um hlutverk forseta á gott skrið áður en komi að ákvörðunum um framboð.

„Ágætt að koma bara hreint til dyranna“

„Ég hef vissulega mínar hugmyndir og skilgreint erindi sem ég tel að gæti gagnast á þessum vettvangi, en hvort fólk hefur áhuga á því sama, eða mér persónulega til þeirra verka, er eitthvað sem ég veit ekki. Það er bara heiðarlegt mat mitt á stöðunni. Ég held að það sé ágætt að koma bara hreint til dyranna með svona erindi,“ segir Stefán Jón. Koma yrði í ljóst hvert það framtak að setja umræðuvettvanginn á Facebook á laggirnar leiddi.

„Til að skapa ramma og umræðuhvata sendi ég bréf um þetta erindi til 250-300 einstaklinga og bauð þeim að koma fram til þátttöku, þetta er fólk víða að úr samfélaginu og suma hef ég aldrei talað við, aðra þekki ég af opinberri umræðu eða þátttöku í samfélagsmálum. En svo springur þetta bara út á eigin forsendum á Facebook, þar sem síðan Hlutverk forseta er þegar orðin lifandi vettvangur,“ segir hann áfram. Blaðamaður rifjar upp að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem Stefán sé orðaður við forsetaembættið.

„Það er rétt hjá þér að í síðustu kosningum fékk ég mikið af áskorunum og stuðningsyfirlýsingum, en ákvað að halda mér til hlés. Þar fóru saman krefjandi störf erlendis og eins fannst mér undanfari kosninganna ekki heillandi. Núna vil ég leggja mitt af mörkum til að setja hugmyndir og samskipti í skapandi farveg sem vonandi leiðir af sér gott kjör.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert