„Forsetakosningar á næsta ári geta markað tímamót í stjórnmálamenningu okkar,“ segir Stefán Jón Hafstein, starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, meðal annars í bréfi sem hann hefur sent til valins hóps einstaklinga, en hann íhugar mögulegt framboð til embættis forseta Íslands í kosningunum á næsta ári.
Stefán hefur sett á laggirnar Facebook-hópinn „Hlutverk forseta“ í því skyni að stofna opinn umræðuvettvang til að kanna hug fólks til hlutverks forseta Íslands að því er segir í bréfinu. Fram kemur ennfremur í bréfinu að það hafi verið sent á 150-200 einstaklinga „sem vakið hafa athygli mína undanfarin ár fyrir að vilja leggja gott til mála.“ Segir hann trausta ábyrgðarmenn almannahagsmuna verða að hugsa sig vandlega um í þessum efnum. Hvers konar forseta fólk vilji og hvert sé hlutverk þess sem gengi embættinu.
„Forseti Íslands er áhrifavaldur, afstaða hans til samfélagsmála er mikilvæg eins og ráða má af framgöngu allra þeirra sem gegnt hafa embættinu á lýðveldistímanum. Því miður er staðan sú að stjórnarskráin gefur talsvert svigrúm til frjálslegrar túlknunar á hlutverki og framgöngu forseta. Næsti forseti Íslands þarf að hafa skýrt umboð til að tala máli almannahagsmuna og beita áhrifum embættisins til góðs,“ segir ennfremur.