Næstum tvöfalt fleiri landsmenn eru ánægðir með störf Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, en óánægðir með þau samkvæmt niðurstöðum nýjustu skoðanakönnunar MMR. Þannig eru 47,8% ánægð með störf forsetans en 25,2% óánægð með þau. Tæplega 27% eru hins vegar hvorki ánægð né óánægð með störf forsetans.
Ef aðeins er miðað við þá sem eru ánægðir eða óánægðir með störf Ólafs Ragnars eru um 2/3 landsmanna ánægðir með þau en þriðjungur óánægður. Forsetakosningar fara fram á næsta ári að því gefnu að fleiri en einn verði í framboði. Ólafur Ragnar var endurkjörinn forseti Íslands árið 2012 með 52,8% atkvæða. Hann hefur verið forseti frá árinu 1996.
MMR kannar reglulega ánægju með störf forsetans. Samkvæmt skoðanakönnunum fyrirtækisins hefur ánægja með störf Ólafs sveiflast nokkuð í kringum 50% á kjörtímabilinu. Minnst hefur hún mælst 47,8% í janúar á þessu ári og núna í desember og mest 63,6% í febrúar 2013.
Mest óánægja með störf forsetans var í júlí 2013 þegar hún var 30,1%. Minnst var hún í maí sama ár eða 17,9%.