Ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að bjóða sig ekki fram til endurkjörs hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Erlendir miðlar hafa fjallað um ákvörðunina og rakið sögu Ólafs í embætti í stuttu máli.
Á Fox News kemur fram að Ólafur sé sá forseti sem hafi gegnt embættinu hvað lengst eða í fimm kjörtímabil frá árinu 1996. Þá er vísað í nýársávarp forsetans og sagt að hann telji að nú sé rétti tíminn til að stíga til hliðar þar sem búið sé að útkljá ýmis mál sem áður ríkti óvissa um eins og aðild Íslands að ESB.
Asíski miðillinn Channel News Asia hefur einnig fjallað um málið. Þar kemur fram að forsetinn telji að nú sé rétti tíminn til að láta af embætti. Þá er hlutverk forseta Íslands rakið í stuttu máli en þar kemur fram að hann hafi í raun afar takmörkuð völd en geti ákveðið að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en hann samþykki lög frá Alþingi, telji hann að þjóðin eigi að fá að tjá sig. Í greininni kemur fram að enn hafi enginn stjórnmálamaður sýnt embættinu áhuga en margir hafi viljað bíða og sjá fyrst hver ákvörðun Ólafs yrði.
Á þýska miðlinum Deutsche Welle kemur fram að Ólafur hafi gegnt embætti í tuttugu ár. Þá segir að hann hafi vald til að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu og hafi nýtt sér það um Icesave. Einnig kemur fram að með því að láta af embætti sé Ólafur ekki að yfirgefa land og þjóð heldur muni hann taka að sér önnur verkefni sem honum bjóðist fyrir landið.