Enginn forsetaframbjóðendanna 2012 hefur tilkynnt um framboð

Frá kjörstað á Álftarnesi í forsetakosningunum árið 2012.
Frá kjörstað á Álftarnesi í forsetakosningunum árið 2012. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn forsetaframbjóðendanna árið 2012 hefur tilkynnt um framboð til forseta Íslands fyrir forsetakosningarnar í ár. Kosningarnar fara fram þann 25. júní nk. og þurfa forsetaframbjóðendur að tilkynna um framboð fimm vikum áður, eða 21. maí nk.

Andrea J. Ólafsdóttir, sem hlaut 1,8 prósent greiddra atkvæða í forsetakosningunum 2012, segir í samtali við mbl að hún sé ekki á leið í framboð. „Afdráttarlausn nei, ég er ekki að spá í neitt svoleiðis. Það er engin tvíræðni í þessu svari,“ segir hún á léttu nótunum. Hún vonast til þess að Íslendingar fái hógværan og heiðarlegan kandídat fram á sjónarsviðið.

Á Facebook-síðu sinni nefnir Andrea Andra Snæ Magnason sem þann frambjóðanda sem henni hugnast best af þeim sem hafa verið nefndir í aðdraganda kosninganna. Hún segist ekki útiloka að fleiri eigi eftir að koma fram á sjónarsviðið sem komi einnig til greina.

Ari Trausti vill ekki tjá sig um hugsanlegt framboð á þessu stigi

Hannes Bjarnason, menntaður landfræðingur sem hlaut 0,98 prósent atkvæða í forsetakosningunum 2012, hefur ekki gert upp hug sinn hvort hann gefi kost á sér fyrir komandi kosningar. „Ég veit það ekki. Það er svarið núna,“ segir Hannes og bætir við að erfitt sé að ná kjöri til forseta án þess að hafa pólitískar fylkingar að baki sér. „Ef Ólafur fer ekki fram, sem ég er ekki sannfærður um ennþá, þá verður áhugavert að sjá hvernig hlutirnir fara,“ segir Hannes.

Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur sem hlaut 8,64 prósent í kosningunum 2012, kaus að tjá sig ekkert um hugsanlegt framboð hans til forseta á þessu stigi þegar mbl sló á þráðinn til hans fyrr í dag. Ekki náðist í Herdísi Þorgeirsdóttur, sem hlaut 2,63 prósent atkvæða árið 2012, og ekki heldur Þóru Arnórsdóttur, sjónvarpskonu sem hlaut næst flest atkvæði árið 2012. 33,16 prósent. Í forsíðuviðtali tímaritsins MAN í fyrra gaf hún það út að hún ætli sér ekki aftur í forsetaframboð.

Andrea Ólafsdóttir gefur ekki kost á sér.
Andrea Ólafsdóttir gefur ekki kost á sér. Skjáskot/visir.is
Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, kaus að tjá sig ekki um …
Ari Trausti Guðmundsson, jarðfræðingur, kaus að tjá sig ekki um hugsanlegt framboð þegar mbl.is leitaðist eftir því við hann fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert